Þóttist heita George til að sofa hjá sjónskertri konu

Georgia Bilham sagði hlutina aldrei hafa átt að ganga svo …
Georgia Bilham sagði hlutina aldrei hafa átt að ganga svo langt, í skilaboðum til konunnar sem hefur sakað hana um kynferðisbrot. Samsett mynd

Meðferð í máli ungrar konu fer nú fram fyrir dómstólum í Cheshire-sýslu í Bretlandi. Hin 21 ár Georgia Bilham er ákærð fyrir 17 brot gegn 19 ára gamalli konu, sem segir Bilham hafa villt á sér heimildir með því að þykjast vera karlmaður. 

Samkvæmt The Guardian heldur konan því fram að hún hafi ekki vitað að Bilham væri kona, heldur hafi haldið að hún ætti í sambandi við mann að nafni George Parry. „George“ hafi verið hlédrægur og haldinn ofsóknaræði vegna tengingar hans vil albönsku mafíuna og því ávallt verið dularfullur í samskiptum.

Löglega blind án gleraugna

Að sögn meints brotaþola var „George“ ávallt klæddur hettupeysu, jafnvel þegar þau stunduðu kynlíf, en hettan huldi andlit hans að mestu. Segir hún „George“ einnig hafa látið sig taka niður gleraugu sín þegar þau mæltu sér mót.

Sjóntækjafræðingur sem veitti meintum brotaþola augnpróf í janúar 2020 bar vitni í málinu og sagði hún konuna svo sjónskerta að hún væri löglega blind án gleraugna. Hún gæti í raun aðeins skynjað hreyfingar og form án gleraugna en gæti ekkert séð í meira en 14 sentímetra fjarlægð. 

Heyrði „George“ gefa upp kvenkyns nafn

Konan segir fyrst hafa komist á snoðir um að „George“ væri ekki allur þar sem hann var séður, þegar parið lenti í bílslysi í maí 2021. Hún hafi þá heyrt hann gefa upp kvenkyns nafn við lögregluþjón í skýrslutöku vegna slyssins.

Konan kveðst hafa gengið á „George“ en hann hafi gefið þær útskýringar að hann hafi gefið upp rangar upplýsingar til lögreglu. Konan samþykkti þá röksemdarfærslu og þau hafi haldið sambandi sínu áfram. 

Segir hlutina ekki hafa átt að ganga svo langt

Bilham kveðst fyrst hafa þóst vera George Parry, þegar hún var aðeins 15 ára gömul, en hún var 19 ára þegar meint kynferðisbrot áttu sér stað. 

Hún neitar allri sök í málinu, en í skilaboðum sem voru lesin upphátt í dómssal bað Bilham konuna ítrekað afsökunar, sagði hlutina aldrei hafa átt að ganga svo langt og kvaðst hata sjálfa sig vegna gjörða sinna. 

Nikita Hughes, önnur kona sem segir Bilham hafa villt á sér heimildir sem George Parry, bar vitni fyrir dómi í dag. Hughes segir „George“ hafa sett sig í samband við hana á samskiptaforritinu Snapchat og þau talað þar saman viðstöðulaust. 

Þau hafi síðar mælt sér mót og „George“ hafi komið að sækja hana á bíl sínum. Hughes kveðst hins vegar hafa þótt hegðun George svo furðuleg, þar sem hann ýtti andliti hennar í burtu þegar hún reyndi að horfa á hann, að hún hafi ákveðið að hitta hann ekki aftur.

mbl.is