Boris Johnson segir af sér þingmennsku

Boris Johnson mun ekki halda starfi sínu áfram sem þingmaður.
Boris Johnson mun ekki halda starfi sínu áfram sem þingmaður. AFP

Boris Johnson, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, hefur sagt af sér sem þingmaður. Afsögnin tekur þegar gildi en ákvörðunin kom í kjölfar þess að Johnson fékk afhenta svokallaða partygate-skýrslu. 

Fréttastofa BBC greinir frá þessu.

Skýrslan var unnin af nefnd skipaðri þingmönnum breska þingsins og er hluti af rannsókn á því hvort að Johnson hafi logið að þinginu varðandi partygate-málið.

Partygate-málið olli miklu fjaðrafoki á sínum tíma en málið snýst um endurtekin veisluhöld í Downingstræti 10 á tímum kórónuveirufaraldursins. Johnson var á þeim tíma forsætisráðherra en málið leiddi til þess að hann sagði af sér embættinu.

Segir þingmenn bola sér úr embætti

Johnson sakar nefndina sem vann skýrsluna um að bola honum úr embætti. 

„Þeir hafa ekki snefil af sönnunargögnum um það að ég hafi meðvitað eða ómeðvitað villt um fyrir þinginu.“

Í skjölum sem nefndin hefur í sínum vörslum kemur fram að Johnson hafi viðurkennt að villa um fyrir þinginu ómeðvitað og að hann hafi viðurkennt að fjöldatakmarkanir í Downingstræti hafi ekki verið sinnt með fullkomnum hætti. Johnson hélt þó fram að veisluhöldin hafi verið nauðsynlegir vinnutengdir viðburðir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert