Fjármálaráðherra Frakklands hefur skyldað 75 stærstu matvælafyrirtækin þar í landi til þess að lækka verðið á matvörum sínum svo að lækkandi hrávöruverð skili sér til neytenda. Fari fyrirtækin á bak orða sinna hefur ráðherrann hótað fjárhagslegum refsiaðgerðum.
Í umfjöllun Reuters um málið kemur fram að fjármálaráðherrann, Bruno Le Marie hyggist einnig nefna og niðurlægja þau fyrirtæki sem ekki standi við skuldbindinguna. Stjórnvöld í Frakklandi séu orðin örg yfir verðinu sem sé að skila sér í matvörubúðir til neytenda þrátt fyrir að verð fyrir allskyns hrávöru hafi lækkað síðustu mánuði.
Haft er eftir Le Marie þar sem hann segir fyrstu verðlækkanirnar geta farið að skila sér í byrjun júlímánaðar. Þá búist hann við því að lækkanirnar skili sér til dæmis í lægra verði á pasta, fuglakjöti og grænmetisolíu.
Telur hann að verðlækkun um tvö til jafnvel tíu prósent geti skilað sér til neytenda.
Verðbólgan í Frakklandi hefur ekki verið jafn lág í heilt ár en hún stendur í sex prósentum og er sögð hafa lækkað hraðar í maí en gert hafi verið ráð fyrir.
Á meðan að Frakkar hafa barist við hækkandi orku og matvöruverð og ekki eytt minna í mat síðan í mars 2009 jókst rekstrarhagnaður matvælafyrirtækja þar í landi um fimmtán prósent á milli fjórða ársfjórðungs síðasta árs og þess fyrsta á þessu ári.