Frakkar þakka bakpokahetju með #MerciHenri

Emmanuel Macron, forseti Frakklands, hitti einnig bakpokahetjuna Henri d'Anselme í …
Emmanuel Macron, forseti Frakklands, hitti einnig bakpokahetjuna Henri d'Anselme í kjölfar árásarinnar í Annecy. AFP

Henri d'Anselme, 24 ára maður sem hrakti stunguárásarmanninn í franska bænum Annecy á brott, kveðst ekki hafa hugsað sig tvisvar um áður en hann hljóp á eftir manninum og notaði bakpoka sinn til að reyna afvopna hann.

Frakkar hafa keppst við að hylla d'Anselme með myllumerkinu #MerciHenri eða #TakkHenri á samfélagsmiðlum, en hann hefur öðlast heimsfrægðir sem „bakpokahetjan.“

Slökkti á heilanum

D'Anselme var ekki einsamall um að stöðva árásarmanninn, en tveir bæjarstarfsmenn og stærðfræðikennari veittust að manninum með skóflur og dreifðu athygli hans til að koma í veg fyrir frekari árásir. D'Anselme hljóp á eftir manninum þegar hann reyndi að stinga af og reyndi að berja hnífinn úr höndum hans með bakpoka sínum.

„Ég hugsaði ekki einu sinni um það. Heilinn minn slökkti bara á sér“ sagði d'Anselme við franska sjónvarpsmiðla. 

Tvö börn berjast enn fyrir lífi sínu

Stunguárásin sem um ræðir átti sér stað í almenningsgarði í Annecy, en fjögur börn á leikskólaaldri særðust ásamt einu foreldri. Tvö barnanna eru alvarlega særð og berjast enn fyrir lífi sínu á sjúkrahúsi. 

Forseti Frakklands Emmanuel Macron heimsótti Annecy í dag og gekk þar á fund hetjanna sem stöðvuðu atburðarásina og heimsótti þau særðu á sjúkrahúsi bæjarins. 

Frakkar hafa keppst við að hylla d'Anselme með myllumerkinu #MerciHenri …
Frakkar hafa keppst við að hylla d'Anselme með myllumerkinu #MerciHenri á samfélagsmiðlum, en hann reyndi að stöðva árásarmanninn með bakpoka sínum. AFP

Framdi verknaðinn í nafni Jesú Krists

D'Anselme er upprunalega frá París en átti leið um Annecy á árslöngu gönguferðalagi sínu um Frakkland til að skoða kaþólskar kirkjur, en d'Anselme er heittrúaður kaþólikki. 

„Ég gerði það sem hver annar Frakki hefði gert,“ sagði d'Anselme. „Það var mér bara óhugsandi að leyfa einhverjum sem var í svo annarlegu ástandi ráðast á þá sem minna mega sín með slíkum hætti.“ 

Árásarmaðurinn er talinn vera 31 árs gamall sýrlenskur hælisleitandi, Abdalmasih H, en hann hefur búið í Svíþjóð í 10 ár. Abdalmasih er kristinn og hrópaði ítrekað að verknaðurinn væri í nafni Jesú Krists.

mbl.is