Hinsta skólaverkfall Gretu Thunberg

Greta Thunberg, merkti lok skólagöngu sinnar með sínu síðasta skólaverkfalli. …
Greta Thunberg, merkti lok skólagöngu sinnar með sínu síðasta skólaverkfalli. Hún segir baráttuna hins vegar rétt að byrja. Samsett mynd

Sænski loft­lagsaðgerðasinn­inn Greta Thun­berg, markaði lok menntaskólagöngu sinnar í dag með sínu síðasta skólaverkfalli. 

„Í dag útskrifast ég, sem þýðir að ég get ekki lengur farið í skólaverkföll fyrir umhverfið. Þetta er því mitt hinsta skólaverkfall,“ skrifaði Thunberg á Twitter-reikning sinn í dag. 

Mótmælti ein fyrst um sinn

Thunberg öðlaðist heimsfrægð vegna skólaverkfalla sinna þar sem hún mótmælti aðgerðaleysi stjórnvalda í loftslagsmálum, en hún sagði það tilgangslaust fyrir sig að ganga í skóla ef yfirvöld ætluðu ekki að bregðast við örum loftslagsbreytingum til hins verra. 

Thunberg mótmælti ein fyrst um sinn fyrir utan sænska þinghúsið, en með tímanum slógust fleiri og fleiri nemendur í lið með henni og úr varð alþjóða-uppreisnarhreyfingin Fridays for Future eða Föstudagar fyrir framtíðina. 

Greta tók sér árs hlé frá námi, þegar hún var 17 ára að aldri til að sigla yfir Atlantshafið og nýta nýfundna frægð sína til að vekja athygli á loftslagsmálum. 

Ekki hætt að mótmæla

Greta kveðst þó svo sannarlega ekki vera hætt að mótmæla á föstudögum, þrátt fyrir að geta tæknilega séð ekki kallað mótmælin „skólaverkfall“ lengur. 

„Við höfum einfaldlega ekki annarra kosta völ, en að gera allt sem í okkar valdi stendur,“ sagði Thunberg á Twitter og bætti við: „baráttan er rétt að byrja.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert