Hvetja til mpox-bólusetninga fyrir Pride

Útbrot á borð við þessi eru eitt einkenna mpox, sem …
Útbrot á borð við þessi eru eitt einkenna mpox, sem áður kallaðist apabóla. Þau fá þó ekki allir en meðal annarra einkenna má nefna hita, þrálátan höfuðverk og þreytu. Ljósmynd/Medscape

Norsk heilbrigðisyfirvöld hvetja fólk í áhættuhópum í Ósló og fylkinu Viken, sem umlykur borgina, til að láta bólusetja sig fyrir mpox-veirunni. Til áhættuhópa teljast karlmenn og transfólk sem hafa kynmök við karlmenn og bendir Miert Skjoldborg Lindboe, borgarlæknir í Ósló, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK á að smithættan aukist í tengslum við Pride-hátíðina um mánaðamótin næstu.

„Við reiknum með aukinni smithættu þegar fólk ferðast en einnig vitaskuld þar sem margir koma saman, svo sem á Pride-hátíðinni,“ segir læknirinn.

Óvitlaust að taka bólusetninguna núna

Töluvert var um smit af völdum veirunnar í fyrra og greindust tæplega hundrað tilfelli í Noregi frá júní í fyrra og þar til nú. Nú hefur smitum hins vegar fækkað á ný en læknar á norska höfuðborgarsvæðinu eru uggandi vegna komandi hátíðarhalda og benda á að bólusetningin veiti ekki fulla vernd fyrr en að nokkrum vikum liðnum.

„Þess vegna er óvitlaust að taka hana núna hafi fólk ætlað sér að ferðast eða skipta um kynlífsfélaga í sumar,“ segir Lindboe yfirlæknir.

Fyrsta tilfelli mpox-veirunnar í Evrópu greindist á Englandi í maí í fyrra en þaðan breiddi veiran úr sér þar til Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin sá ástæða til að senda frá sér viðvörun vegna faraldurs enda hafði mpox fram að því ekki náð fótfestu í þessum heimshluta.

NRK

mbl.is