Rússar hefja flutning á taktískum kjarnorkuvopnum til Hvíta-Rússlands í júlí, en sértækar kjarnorkugeymslur þar verða tilbúnar í kring um 7. og 8. júlí samkvæmt Reuters.
Áformin eru samkvæmt samkomulagi sem forsetar nágrannalandanna komust að í mars, um að Hvíta-Rússland myndi hýsa kjarnorkuflaugar, í eigu Rússa.
Alexander Lúkasjenkó, forseti Hvíta-Rússland hefur verið einn af helstu bandamönnum Vladimír Pútíns, Rússlandsforseta, síðan innrásin í Úkraínu hófst, en forsetarnir funduðu varðandi málið í gær og sagði Pútín „allt ganga samkvæmt áætlun.“
Um er að ræða fyrsta skipti sem Rússar flytja vígvallarkjarnavopn sín yfir landamæri síðan Sovétríkin hrundu árið 1991.
Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra, sagði í samtali við mbl.is í mars að vopnin ógnuðu í raun ekki öðrum en íbúum Hvíta-Rússlands, enda væri varla hægt að valda meira tjóni í Úkraínu en þegar hefur verið gert.
Vígvallarkjarnavopn (e. tactical nuclear weapons), eru kjarnorkuvopn hönnuð til þess að nota í návígi við andstæðinga og er sprengikraftur þeirra almennt minni en herfræðileg kjarnorkuvopn (e. strategic nuclear weapons), sem eru hönnuð til þess að valda gjöreyðileggingu úr mikilli fjarlægð.
Rússar eru ekki einir um að geyma kjarnorkuvopn sín, fyrir utan eigin landssteina, en Þýskaland, Belgía, Ítalía, Holland og Tyrkland eru meðal þeirra landa sem geyma taktísk kjarnorkuvopn í eigu Bandaríkjamanna. Allt vald yfir vopnunum er í höndum Bandaríkjanna, en Rússar munu einnig hafa fullt vald yfir vopnum sínum á hvítrússneskri jörð.