Sótt að söngvara Rammstein

Till Lindemann, söngvari þýsku hljómsveitarinnar Rammstein, er sakaður um að …
Till Lindemann, söngvari þýsku hljómsveitarinnar Rammstein, er sakaður um að hafa byrlað konum ólyfjan og leitað á þær gegn vilja þeirra. Hann neitar sök. AFP/Christophe Gateau

Söngvari hljómsveitarinnar Rammstein, Till Lindemann, hefur verið sakaður um að níðast á konum eftir tónleika og byrla þeim eitur. Hann kveðst alsaklaus og enn heldur yfirstandandi tónleikaferð sveitarinnar um Evrópu áfram. Fyrir utan tónleikastaði safnast hins vegar fólk saman og mótmælir og engin partí eru haldin eftir að tónleikum lýkur.

Fjöldi kvenna hefur stigið fram og lýst því hvernig konur voru valdar til að fá að fara baksviðs eftir tónleika. Í frásögnum þeirra kemur fram að þeir telji að ólyfjan hafi verið blandað í drykki þeirra og Lindemann hafi gerst ágengur gegn vilja þeirra.

Hljómsveitarmeðlimir hafa ekki tjáð sig beint um málið, en hljómsveitin gaf út yfirlýsingu og á fimmtudag kom síðan yfirlýsing frá lögmönnum hins sextuga Lindemanns þar sem sagði að hann væri saklaus af öllum þessum ávirðingum.

Gengið yrði fram af hörku gegn þeim sem héldu öðru fram og sömuleiðis fjölmiðlum, sem fjallað hefðu um málið eins og enginn vafi léki á sekt söngvarans.

Lindemann er einn frægasti poppari Þýskalands og fjallað er um málið í forsíðugrein Der Spiegel, sem kom út í gær, föstudag. Þar er vöngum velt yfir því hvort aðrir í hljómsveitinni hafi vitað af framferði söngvarans vitnað í orðróm um að þeir gisti ekki á sama hóteli og hann í tónleikaferðinni.

Þar er einnig talað um að breytt hafi verið út frá atriðum á tónleikum sveitarinnar. Í einu laga hennar, sem nefnist Pussy, hafi verið til siðs að draga fram fallbyssu og skjóta úr henni hvítri froðu yfir áhorfendur á meðan Lindemann söng orðin „steck Bratwurst in dein Sauerkraut“. Segir í blaðinu að þessu hafi verið sleppt á tónleikum sveitarinnar í München í vikunni, enda hafi enginn viljað leika sér með slíka tvíræðni í miðju þessu hneykslismáli.

Nánar er fjallað um málið í Sunnudagsblaðinu.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert