Vatnssóun getur varðað sekt

Vatnsból hafa mörg hver minnkað til muna vegna viðvarandi þurrks.
Vatnsból hafa mörg hver minnkað til muna vegna viðvarandi þurrks. AFP

Milljónum íbúa víðs vegar um Suður-Bretland verður bannað að nota garðslöngur, þar sem hitabylgja á eftir að valda mikilli eftirspurn á drykkjarvatni, að sögn breskra yfirvalda. Virði fólk ekki bannið getur það átt yfir höfði sér sekt upp á þúsund pund, eða tæplega 180 þúsund íslenskar krónur. 

Um er að ræða tímabundið bann fyrir íbúa suðurhluta Kent og Sussex, en bannið tekur gildi þann 26. júní þar sem veðurfræðingar spá lítilli úrkomu í sumar. Garðslöngubann, sem er tímabundið notkunarbann, er notað af vatnsveitum til að stjórna vatnsbirgðum á tímum mikillar eftirspurnar og lítils framboðs. 

Biðla til viðskiptavina að nota vatnið eingöngu til nauðsynlegra nota

Fyrirtækið South East Water greinir frá því að eftirspurn í júní hafi slegið öll met, þó svo að fyrirtækið hafi útvegað 120 milljón lítra af vatni til viðbótar á dag. „Ástandið hefur þróast mun hraðar en í fyrra,“ segir framkvæmdastjóri fyrirtækisins, David Hinton.  

„Þrátt fyrir að biðja viðskiptavini um að nota vatn eingöngu til nauðsynlegra nota, þá höfum við því miður ekki átt neinn annan kost en að innleiða þetta tímabundna bann til þess að vernda vatnsbirgðir íbúa Kent og Sussex“, bætir hann við.  

Eftirspurn meiri en framboð

Southern Water gaf einnig út viðvörun í gær þar sem greint var frá því að eftirspurn væri mun meiri en framboð, en víðs vegar um landið eru lón þegar farin að minnka vegna langvarandi þurrkatíðar.  

Seinasta sumar var það heitasta sem sögur fara af, jafnt sumrinu 2018, samkvæmt veðurstofu Bretlands, en hiti fór yfir 40 gráður á nokkrum stöðum.

Þarf frekari aðgerðir til að vernda vatnsbirgðir

Í Skotlandi er ástandið með svipuðum hætti en skoska umhverfisverndarstofnunin (SEPA) hefur gefið út vatnsskortsviðvaranir vegna hættu á gríðarlegum skorti á vatni í lok mánaðarins.

„Árnar okkar og lónin eru undir gríðarlegu álagi og það er ljóst að frekari aðgerðir þarf til þess að vernda þau“, sagði yfirmaður vatnsáætlunar SEPA, Nathan Critchlow-Watton.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert