Dauði að ofan – drónastríðið í Úkraínu

Úkraínskur hemaður býr sig undir að varpa dróna á loft.
Úkraínskur hemaður býr sig undir að varpa dróna á loft. Ljósmynd/Oksana Johannesson

Stríðið í Úkraínu hefur verið nefnt fyrsta allsherjardrónastríðið. Sömu drónum og hægt er að kaupa í verslunum er beitt í ríkari mæli á vígvellinum. Drónar hafa verið nýttir í hernaði í langan tíma, en aldrei af báðum stríðsaðilum í jafn ríkum mæli og raun ber vitni í Úkraínu. Fréttaritari Morgunblaðsins fékk nýlega að fylgjast með störfum hersveitar sem sérhæfir sig í njósnum með drónum og hlerun fjarskipta.

Bæði ríkin nýta bæði árásardróna og njósnadróna. Árásardrónar varpa sprengjum eða eru sjálfir sprengjur og tortímast í árás, líkt og hinir írönsku Sahed 136 sem Rússar nota mikið. Njósnadrónar eru notaðir til að kanna stöðu og staðsetningu óvinahers og til senda uppýsingar til stórskotaliðs, flughers og árásardróna til að gera árásir nákvæmari.

Auk dróna einkennir skotgrafahernaður og stórskotalið stríðið í Úkraínu, sem minnir um margt á fyrri heimstyrjöldina, þar sem víglínan stendur í stað. Þreytistríð (e. attritional warfare) er nú meira einkennandi en kænskustríð (e. manoeuvre warfare) þar sem landsvæði skipta hratt um hendur, eins og í sókn Rússa í suðri í upphafi stríðs og leiftursókn Úkraínu í Kharkiv-héraði í haust.

Nýlegar árásir á Moskvu með drónum sýna enn fremur mikilvægi dróna í stríðinu í Úkraínu (líklega voru þetta UJ-22 drónar, framleiddir í Úkraínu, sem draga 800 km). Úkraínumenn búa ekki yfir eldflaugum sem hægt er að send á skotmörk í Rússlandi, en drónaárásir eru tíðar á skotmörk á rússnesku landsvæði, bæði á Krímskaga og í suðurhluta Rússlands. Markmið Úkraínu eru að færa stríðið til Rússlands, bæði í hernaðarlegum tilgangi og til þess að sýna almenningi í Rússlandi fram á að þetta sé stríð, en ekki „sértæk hernaðaraðgerð“ sem einskorðist við úkraínskt landsvæði. Með árásum Rússland gera Úkraínumenn sér von um að hafa áhrif á almenningsálit þar í landi.

Úkraínskir hermenn búa sig undir að setja dróna á loft. …
Úkraínskir hermenn búa sig undir að setja dróna á loft. Bæði þarf að kasta honum á loft en á sama tíma þarf annar að stýra honum með fjarstýringu. Ljósmynd/Oksana Johannesson

Barist í fjarlægð

Drónastríðið gefur þessu stríði nýja vídd. Það er háð úr fjarlægð eins og stórskotaliðsstríðið og drónarnir leika lykilhlutverk í miðun stórskotaliðs. Hermenn berjast sjaldan augliti til auglitis. Þúsundir dróna fljúga yfir vígvöllinn í Úkraínu á degi hverjum. Í fyrri átökum, svo sem í Afganistan og Írak, voru drónar notaðir af einum stríðsaðilanum, Bandaríkjunum, í óumdeildri lofthelgi. Í Úkraínu er barist um yfirráð í lofti og báðir stríðsaðilar búa yfir fullkomnum loftvarnavopnum.

Gagndrónastríð er annar vinkill á þessum átökum. Drónar eru skotnir niður með loftvarnarvopnum, minni drónar stundum með rifflum og hríðskotabyssum. Með raftæknilegum hergögnum (e. electronic warfare) er einnig hægt að trufla og rjúfa fjarstýringu og myndsendingar dróna. Báðir stríðsaðilar beita þeirra tækni sem skýrir m.a. af hverju líftími minni dróna er skammur, að meðaltali aðeins fjögur flug. Talið er að Úkraínumenn glati allt að 10.000 drónum á mánuði á víglínunni, sem 1.200 km löng. Flestum þessara dróna er tortímt með raftæknivopnum.

Önnur ríki sýna þessu drónastríði mikinn áhuga. Það er prófsteinn á það hvernig milliríkjastríð gætu þróast í framtíðinni, t.a.m. stríð milli Kína og Taívan.

Úkraínskir hermenn setja saman dróna úti á akri.
Úkraínskir hermenn setja saman dróna úti á akri. Ljósmynd/Oksana Johannesson

Helstu drónar Úkraínu:

Switchblade 300: Bandarískur árásardróni. Þyngd: 2.5 kg. Lengd: 50 cm. Drægni: 10 km. Hámarkshraði: 160 km. Ætlaður til tortíma litlum hópum hermanna og brynvögnum.

Bayraktar TB2: Tyrkneskur njósna- og árásardróni. Á stærð við lita flugvél. Þyngd: 550 kg. Lengd: 6.5 m. Drægni: 300 km. Hámarkshraði: 220 km. Útbúinn leysistýrðum nákvæmnissprengjum. Stærðin gerir hann viðkvæman fyrir loftvarnarflaugum.

DJI Matrice 300 RKT: Kínverskur njósnadróni sem hægt er að kaupa í verslunum. Þyngd: 3.5 kg. Lengd: 80 cm. Drægni: 15 km. Hámarkshraði: 80 km. Ódýrir drónar á borð við Matrice hafa aukið gífurlega sýnileika á vígstöðvunum. Þeir geta borið sprengjur á stærð við handsprengjur. 

Helstu drónar Rússa:

Orlan-10: Vinnuhestur rússneska hersins. Vængjaður njósnadróni með rafræna hernaðargetu (til að trufla dróna andstæðingsins). Þyngd: 5 kg. Lengd: 2 m. Drægni: 110 km. Hámarkshraði 150 km. Bensínknúinn hreyfill knýr drónan áfram og er hann því hávær.

Shahed-136 (á rússnesku nefndur Geran-2): Íranskur árásardróni (sjálfstortímandi). Þríhyrningslaga. Þyngd: 200 kg. Lengd: 3.5 m. Drægni: 2400 km. Hámarkshraði 185 km. Í stefninu er 50 kg sprengja, sem getur tortímt heilli byggingu. Hávær hreyfill knýr drónann áfram. Það er dýrt að skjóta svona dróna niður með loftvarnarflaugum, því hann er um 10 sinnum ódýrari en varnar flaugarnar.

Drónar sem bæði Úkraína og Rússland nota:

DJI Mavic 3: Lítill kínverskur njósnadróni sem hægt er að kaupa í verslunum. Þyngd: 1 kg. Lengd: 35 cm. Drægni: 15 km. Hámarksharði: 70 km. Þetta er algengasti dróninn í vopnabúrum Úkraínu og Rússlands. Hundruð eru á flugi á degi hverjum á vígvellinum og geta borið litlar sprengjur. Í leiftursókn Úkraínu í Kharkiv-héraði voru þessir drónar notaðir til að varpa sprengjum á jarðsprengjusvæði til að rýma leið fyrir hermenn. Meginmarkmið þeirra er hins vegar að finna vopn og mannafla andstæðingsins til að stýra og leiðrétta stórskotaliðsárásir.

Úkraínskir hermenn með lítinn dróna sem hægt er að kaupa …
Úkraínskir hermenn með lítinn dróna sem hægt er að kaupa í verslunum. Ljósmynd/Oksana Johannesson

Kúltsjítskíj-hersveitin

Til að kynnast nánar drónastríðinu sóttum við heim hersveit í bænum Svjatohírsk (Heilagafjall), sem  sérhæfir sig í njósnum með drónum og hlerun fjarskipta rússneska hersins, þ.e. loftnjósnum og hljóðnjósnum. Með því að samræma þessa tvo þætti er hægt að fá skýrari mynd, ekki einungis af hergögnum og staðsetningum, heldur einnig ásetning og áformum andstæðingsins. Við fáum að hlusta á upptökur af samskiptum rússneska hersins – á einni er hermaður að reyna að bítta á nætursjónauka og stolnu silfurstelli. Á öðru eru hermenn að kvarta yfir slæmum aðbúnaði og takmörkuðum aðföngum.

Hersveitin samanstendur af sjálfboðaliðum sem margir hafa reynslu á sviði upplýsingatækni. Hersveitin var upphaflega hluti af Kúltsjítskíj-sjálfboðaliðsveitinni (nefnd eftir stofnanda sveitarinnar) sem hafði tekið þátt í bardögum í Donbas frá 2014. Á fyrstu mánuðum stríðsins 2022 buðu margir félagar sveitarinnar sig fram sem sjálfboðaliða á ný og sérstök eining var stofnuð, sem sérhæfir sig einungis í loft- og hljóðnjósnum. Einingin fékk nafnið Tsjérkes.

Tsjérkes tók þátt í frelsun Kýív-héraðs í mars á síðasta ári þar sem loft-og hljóðnjósnir léku lykilhlutverk í bardögum við rússneska herinn.

Átökin um Svjatohírsk

Svjatohírsk er 4.000 manna bær á bökkum ánnar Síverskíj Donéts, sem var frelsuð í september eftir rúmlega 3 mánaða hernám Rússa. Svjatohírsk er heilsulindastaður og þar er fornt munkaklaustur, sem er að hluta byggt inn í fjall. Á fjallinu stendur og gnæfir yfir bæinn 28 metra há konstrúktívísk stytta af sovéska byltingarleiðtoganum Artjom, stærsta stytta konstrúktivismans í fyrrum Sovétríkjum.

„Baton“, yfirmaður loftnjósnadeildar herfylkisins.
„Baton“, yfirmaður loftnjósnadeildar herfylkisins. Ljósmynd/Oksana Johannesson

Leiðsögumaður okkar gengur undir nafninu Baton. Hann er yfirmaður loftnjósnadeildarinnar. Það er mikil eyðilegging í borginni, rústahaugar og eyðilögð hergögn rússneska hersins víða. Notuð skotfæri rússneska hersins eru á víð og dreif við kirkju í miðbænum. Baton segir okkur að hersveitin hans og úkraínski herinn hafi hörfað frá borginni í byrjun júní, einkum vegna skorts á stuðningi frá stórskotaliði. Í leiftursókn Úkraínuhers í september í náðu þeir bænum aftur á sitt vald, en Rússar sprengdu á undanhaldinu brú sem tengdi bæinn við munkaklaustrið. Njósnasveit Batons lék lykilhlutverk við frelsun bæjarins. Þeir notuðu dróna til að útvega nákvæmar upplýsingar um staðsetningu rússneskra hermanna og hergagna.   

Verkefni loftnjósnadeildarinnar

Við gistum hjá hersveitinn í kjallara byggingar til kynnast daglegri rútínu og fræðast frekar um störf sveitarinnar. Það er öruggara að vera í kjallara, en á efri hæðum, ef Rússar myndu gera sprengjuárás. Nægur matur er til staðar, eins og hjá öllum hersveitum sem við höfum heimsótt. Miðað við hleranir á fjarskiptum Rússa kvarta þeir oft yfir matarskorti.

Næsta dag förum við með hermanni, sem gengur undir nafninu Hajdamak að brúnni að munkaklaustrinu, sem sprengd var í loft upp. Hann segir okkur að loftnjósnadeildin vinni allan sólarhringinn. Hún fái verkefni frá samhæfingarstöð úkraínska hersins varðandi hvaða svæðum beri að fylgjast með, drónar eru sendir á loft og hnit send tilbaka. Samhæfingarstöðin sendir hnitin til stórskotaliðsins sem hefur skothríð. Með hjálp drónanna er árangurinn metinn og hnit leiðrétt ef þurfa þykir. „Þetta er stríð stórskotaliðs og dróna,“ segir Hajdamak okkur.

Lítill njósnadróni settur á loft. Úkraínumenn glata um 10.000 drónum …
Lítill njósnadróni settur á loft. Úkraínumenn glata um 10.000 drónum á mánuði, einkum vegna raftæknivopna Rússa. Ljósmynd/Oksana Johannesson

Hermaður sem er kallaður Joker slæst í för með okkur. Við keyrum með honum ásamt öðrum hermanni út á akur skammt frá. Joker segist hafa særst þar fyrir nokkrum mánuðum í stórskotaliðsárás þegar Rússum tókst að staðsetja drónateymið. Þetta er áhætta sem allir drónahermenn þurfi að taka.

Dróni settur á loft

Hermennirnir ætla að setja á loft úkraínskan dróna. Hann vegur 10 kg og getur flogið í 20 km fjarlægð í eina klukkustund. Hann hefur það um fram þann rússneska Orlan 10 að ganga fyrir batteríum og flýgur því hljóðlega. Dróninn rúmast í langri handtösku. Það þarf fyrst að setja hann saman, sem tekur dágóða stund. Síðan þarf einn hermaður að hlaupa með hann og varpa honum til flugs. Þetta sparar auka tækjabúnað og einfaldar flutning. Annar hermaður stýrir drónanum með fjarstýringu og sá þriðji fylgist með á tölvuskjá því sem fyrir augu ber og gefur fyrirmæli til þess sem stýrir.

Við spyrjum Joker hvað sé það erfiðast við að stjórna dróna. Hann segir að það sé að halda ró sinni á meðan á fluginu stendur. Það sé margt sem geti farið úrskeiðis. Lykilatriðið sé að missa ekki stjórn á drónanum, sérstakleg ef byrjað er skjóta á hann eða ef raftæknivopnum er beitt. Þá þarf að stýra honum tilbaka svo hann glatist ekki. Hann segir að Úkraína sé núna besta landið til að læra herflug dróna því það þurfi sérstaka hæfileika til að stýra þeim á vígvellinum.

Úkraínskur hermaður fyrir framan brú að munkaklaurstri í Svjatohírsk sem …
Úkraínskur hermaður fyrir framan brú að munkaklaurstri í Svjatohírsk sem Rússar sprengdu á undanhaldi frá borginni. Ljósmynd/Oksana Johannesson

Tæknin er ekki nóg

Drónahermennirnir segja okkur að úkraínski herinn noti dróna með skilvirkari hætti en Rússar. Ákvarðanatökuferlið sé einfaldara, lægra settir liðsforingjar hafa meira ákvörðunarvald og geti því tekið ákvarðanir á vettvangi um skotárásir stórskotaliðs mun hraðar. Þetta sé í samræmi við herstaðla NATO þar sem lægra settir liðsforingjar fá meira svigrúm og eru hvattir til að sýna frumkvæði. Hjá Rússum þurfi oft samþykki fyrir árásum að koma frá háttsettum liðsforingjum, sem tefur ákvarðanatöku. Skotmarkið hafi oft færst til þegar ákvörðun um árás kemur loks í gegn. Herstaðlar Rússa séu enn fastir í sovéskum hugsunarhætti.

Þessi hugsunarháttur endurspeglast einnig í skeytingarleysi fyrir mannfalli á meðal óbreyttra borgara, eins og hefur sést stórfelldum og ónákvæmum stórskotaliðsárásum á úkraínskar borgir, s.s. Maríúpol, Sévérodonetsk og Bakhmút. Einnig endurspeglast sovéskur hugsunarháttur í skeytingarleysi fyrir mannfalli í eigin röðum, eins og ítrekaðar framlínuárásir (e. frontal attack) mánuðum saman í borgunum Soledar og Bakhmút, sem hafa leitt til gífurlegs mannfalls og skilað takmörkuðum árangri, þó Rússar hafi að lokum náð bæði Soledar og Bakhmút á sitt vald eftir mikið mannfall.

Úkraínskur hermaður stillir drónann í gegnum fartölvu.
Úkraínskur hermaður stillir drónann í gegnum fartölvu. Ljósmynd/Oksana Johannesson

Framþróun drónastríðsins

Þúsundir dróna eru flugi yfir Úkraínu á hverjum degi og eru stór hluti af nær öllum hernaðaraðgerðum. Óvinurinn er oft í margra kílómetra fjarlægð, en drónarnir gefa Úkraínu og Rússlandi færi á að sjá og gera árásir úr fjárlægð, yfirleitt með stórskotaliðsvopnum, en stundum með árásardrónum, þyrlum og flugvélum. Það ríki sem hefur betur í þessu drónastríði mun eiga aukna möguleika á sigri.

Rússar upplifa nú skort á Orlan-10 drónum. Marga íhluti, svo sem hálfleiðara, er nú erfiðara að útvega en áður vegna efnahagsþvingana og eru Rússar nú fullkomlega háðir Írönum hvað varðar árásardróna.

Hvernig drónastríðið mun þróast á næstu mánuðum, og jafnvel árum, er erfitt að segja.

Fyrir utan langdræga árásardróna og njósnadróna þurfa Úkraínumenn gífurlegt magn af ódýrum njósnadrónum til að styðja við aðgerðir stórskotaliðs á vígvellinum, drónum á borð við DJI Mavic.

Úkraínskir ráðamenn hafa sagt að markmiðið sé að kaupa 200.000 dróna á þessu ári, bæði þá sem framleiddir eru í Úkraínu og erlendis, en um 30 fyrirtæki framleiða nú dróna í Úkraínu. Markmiðið er að geta fylgst með allri víglínunni í rauntíma. Það þarf einnig öfluga grunngerð til að vinna úr öllum þeim upplýsingum sem berast frá drónunum.

Stríðið í Úkraínu hefur sýnt að drónar eru nú orðnir jafn mikilvægur hluti herafla og skriðdrekar, fótgöngulið, stórskotalið, loftvarnarlið, flugher og floti

Óhætt er að segja að í Úkraínu er framtíðin núna hvað drónastríð snertir.

Greinarhöfundur og ljósmyndari með drónahersveit.
Greinarhöfundur og ljósmyndari með drónahersveit. Ljósmynd/Oksana Johannesson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: