Kanadísk heilbrigðisyfirvöld eru að undirbúa innköllun á orkudrykknum Prime Energy, sem kynntur er af þekktum YouTube-stjörnum, KSI og Logan Paul, vegna áhyggja af koffínmagni drykkjarins.
BBC greinir frá því að drykkurinn hafi ekki verið seldur í Kanada nema í einhverjum búðum í leyfisleysi.
Reglur þar í landi kveða á um að koffíninnihald drykkja megi ekki vera meira en 180 mg í hverri dós. Sumir drykkir Prime Energy innihalda 200 mg.
Í yfirlýsingu fyrirtækisins til BBC sagði að koffínmagn sé innan þeirra marka sem leyfilegt sé í þeim ríkjum sem drykkurinn er seldur í. Á hverri Prime-flösku sé viðvörun um að ekki sé mælt með drykknum fyrir börn yngri en 18 ára.
Prime Energy sem verður seldur í Kanada mun innihalda 140 mg.
