Segist hafa elt „lítinn hvítan“ furðuhlut

David Fravor segist hafa elt furðuhlut sem hann og áhöfn …
David Fravor segist hafa elt furðuhlut sem hann og áhöfn hans komu auga á, á himnum. AFP

David Grusch, fyrrverandi starfsmaður bandarísku leyniþjónustunnar, segir bandarísk stjórnvöld hafa furðuhluti sem sést hafa á himni (e. UAP) í sinni vörslu. 

Grusch kveðst hafa ákveðið að gerast uppljóstrari í þessum efnum og kom fyrir bandaríska þingið í dag. Ásamt honum mætti fyrrverandi liðsforinginn David Fravor fyrir þingið og lýsti því þegar hann elti furðuhlut þegar hann var við skyldustörf.

Segist Grusch byggja sínar uppljóstranir á framburði yfir 40 vitna. Fundinum er streymt beint á vef BBC en þar er notast við enska hugtakið „unidentified aerial phenomena“, sem nær til furðuhluta á himnum fremur en fljúgandi furðuhluta (e. UFO).

David Grusch kom fyrir þingið í dag ásamt fleiri vitnum.
David Grusch kom fyrir þingið í dag ásamt fleiri vitnum. AFP

Þegar Grusch var spurður hvort bandarísk stjórnvöld hafi fljúgandi furðuhluti í sinni vörslu svaraði hann: „Tvímælalaust.“ Þá taldi hann mikilvægt að flugöryggi yrði tryggt og hvatti flugmenn til þess að stíga fram og greina frá því þegar þeir yrðu vitni af fljúgandi furðuhlutum.

Segir atvikið ekki hafa verið rannsakað

David Fravor, sem áður var liðsforingi í bandaríska sjóhernum, lýsti því þá fyrir þinginu að hann hafi orðið var við lítinn hvítan fljúgandi furðuhlut þegar hann var á flugi yfir sjó.

Flugratsjá hafi greint hreyfingu hlutarins sem hann og áhöfnin eltu í eina og hálfa mínútu, áður en hann hækkaði flugið og hvarf loks. Fravor segir hreyfingarnar hafa verið frábrugðnar öllu því sem hann hafi séð. Atvikið náðist á myndband en var aldrei rannsakað að hans sögn.

Ekki allir sannfærðir

Ekki eru allir þingmenn bandaríkjaþings sannfærðir um sannleiksgildi frásagnanna. Virginia Foxx, öldungadeildarþingmaður Repúblikana, lýsti yfir efasemdum í málaflokknum og vísaði til kínverska loftbelgsins sem fannst í Bandaríkjunum í vetur.

„Við skuldum bandarísku þjóðinni gagnsæi í þessum efnum,“ sagði hún og bætti við að ástæðulaust væri að ala á ótta.

Ryan Graves, David Grusch og David Fravor mættu fyrir þingið …
Ryan Graves, David Grusch og David Fravor mættu fyrir þingið í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert