Trump ákærður fyrir að ætla að eiga við úrslit kosninga

Trump sækist eftir embætti forseta að nýju.
Trump sækist eftir embætti forseta að nýju. AFP/Ed Jones

Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, hefur verið birt kæra sem tekin verður fyrir í alríkisdómstól. Kæran kemur í kjölfarið á rannsókn sérstaks saksóknara, Jack Smith, sem falið var að kanna hlut forsetans fyrrverandi í því að eiga við úrslit forsetakosninganna 2020.

Eins var skoðaður þáttur Trump í þeirri atburðarás sem leiddi til þess að ráðist var á þinghúsið í Washington.

Fjölmiðlar vestanhafs, þar á meðal CNN, herma að Trump hafi verið tilkynnt um ákæruna.

Þetta er þriðja ákæran á hendur forsetanum fyrrverandi í sakamáli. Jack Smith kærði Trump fyrir glæfralega meðhöndlun leyniskjala nú í júní og fyrr á árinu var hann ákærður fyrir sviksemi í viðskiptum.

Neitaði Trump sök í báðum málum og hefur þegar tilkynnt framboð sitt til forseta á næsta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert