Giuliani tapaði

Rudy Giuliani var í dag dæmdur sekur. Dómari þarf aðeins …
Rudy Giuliani var í dag dæmdur sekur. Dómari þarf aðeins að komast að þeirri niðurstöðu hvort hann þurfi að greiða skaðabætur og hversu háar. Myndin er sakborningsmynd sem tekin var af Giuliani þegar hann gaf sig fram við lögregluna í Atlanta í síðustu viku í tengslum við annað mál. AFP/Lögreglustjórinn í Fulton-sýslu

Alríkisdómari hefur komist að þeirri niðurstöðu að Rudy Giuliani hafi rýrt mannorð tveggja starfsmanna á kjörstað í Georgíuríki þegar hann sakaði þá um að hafa talið rangt upp úr kjörkössunum. 

Starfsmennirnir tveir unnu á kjörstað í Atlanta í forsetakosningunum árið 2020. Giuliani er fyrrverandi lögmaður Donalds Trumps, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna. 

Dómari í Washington komst að þessu í dag og þýðir niðurstaðan að meiðyrðamál sem starfsmennirnir höfðuðu gegn honum verður tekið fyrir. Verður það ekki aðeins tekið fyrir heldur aðeins til þess að komast að því hvort og þá hversu háar skaðabætur hann þarf að greiða starfsmönnunum. 

New York Times greinir frá og segir lögmann Giuliani ekki hafa viljað tjá sig um niðurstöðuna.

Líkt við eiturlyfjasala

Málareksturinn tengist þeirri atburðarás sem fór af stað í kjölfar forsetakosninganna í Bandaríkjunum 2020 þegar Biden hafði betur en Trump. 

Trump og stuðningsmenn hans, þar á meðal Giuliani, héldu því fram í fjölmiðlum að ranglega hefði verið talið upp úr kjörkössum og að niðurstaðan hafi í raun ekki verið sú að Biden hafi unnið. 

Nafngreindi Giuliani starfsmennina tvo, sem eru svartar konur, og líkti þeim við eiturlyfjasala. Kallaði hann einnig eftir því að leitað yrði á heimili þeirra.

mbl.is
Loka