Apple mun uppfæra iPhone 12 síma vegna geislunar

iPhone 12 símarnir í Frakklandi verða uppfærðir.
iPhone 12 símarnir í Frakklandi verða uppfærðir. AFP

Bandaríska tæknifyrirtækið Apple greindi frá því í dag að fyrirtækið ætli að uppfæra iPhone 12 síma í Frakklandi eftir að eftirlitsaðilar í landinu stöðvuðu sölu á símunum.

Ákvörðun eftirlitsaðilanna sneri að því að símarnir gæfu frá sér of mikið af rafsegulgeislum, en símarnir komu á markaðinn árið 2020. Apple var gert kunnugt um að ef fyrirtækið næði ekki að leysa vandamálið með því að uppfæra hugbúnaðinn yrði að innkalla alla selda síma í landinu.

„Apple hefur fullvissað mig um að það ætli uppfæra hugbúnaðinn í iPhone 12 á næstu dögum,“ segir Jean-Noel Barrout, ráðherra fjarskiptamála, í yfirlýsingu sem hann sendi AFP-fréttaveitunni.

Bæði hann og Apple fullyrtu að almenningi stafaði engin hætta vegna geislunarinnar. Bandaríski tæknirisinn fær tvær vikur til að uppfæra símanna.

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin kom þeim skilaboðum áleiðis til Frakka í gær að ekkert benti til þess að að rafsegulsgeislun sé skaðleg fólki í lágum skömmtum og í nokkrum rannsóknum sem gerðar hafa verið hafa ekki fundist skaðleg heilsufarsleg áhrif af völdum farsímanotkunar og engir sjúkdómar tengist rafsegulgeislun.

mbl.is