Stærsti kafbátur er heimsótt hefur Noreg

USS Florida er gríðarstór, smíði hans hófst í júlí 1976 …
USS Florida er gríðarstór, smíði hans hófst í júlí 1976 og var honum hleypt af stokkunum árið 1981. Ljósmynd/Wikipedia.org/Bandaríski sjóherinn/Lynn Friant

Það var í gærmorgun, fimmtudagsmorgun, sem stærsti kafbátur, er nokkru sinni hefur heimsótt Noreg, kom til hafnar í Tromsø, hinn bandaríski USS Florida, 171 metra langt stríðsfley sem borið getur allt að 154 Tomahawk-flaugar ætlaðar til árásar á skotmörk á landi.

USS Florida er kjarnorkukafbátur í Ohio-byggingarflokki og staðfesti aðstoðarskipherrann Stephen Mack á blaðamannafundi um borð í spænsku freigátunni ESPS Alvaro de Bazan að kafbáturinn sé sá stærsti sem nokkru sinni hafi heimsótt norska höfn.

USS Florida er stærsti kafbátur sem nokkru sinni hefur heimsótt …
USS Florida er stærsti kafbátur sem nokkru sinni hefur heimsótt Noreg, 171 metra langur og getur borið vel á annað hundrað Tomahawk-flaugar til árása á skotmörk á landi. Ljósmynd/Sjóher Bandaríkjanna/Christine Montgomery

„Það gleður okkur að Noregur taki á móti USS Florida. Meðan á dvöl okkar hér stendur fáum við ýmsa góða gesti um borð. Heimsókn okkar til Tromsø er enn fremur staðfesting á sambandi Bandaríkjanna og Noregs,“ sagði Mack á blaðamannafundinum en einn gestanna sem hann nefndi verður norski varnarmálaráðherrann Bjørn Arild Gram sem þiggur heimsókn um borð á mánudaginn.

Stöðugleiki tryggður

„Varnir Noregs byggjast á stuðningi bandalagsríkja er til neyðarástands og stríðs kemur. Til þess að slíkt megi kallast trúverðugt og geti virkað við raunverulegar aðstæður er nauðsynlegt að bandamenn okkar þjálfi og æfi í Noregi og á nálægum svæðum með norskum her. Þess vegna hlakka ég til að heimsækja USS Florida og mannskapinn um borð,“ segir Gram í samtali við norska ríkisútvarpið NRK.

Að sögn sendiherra Bandaríkjanna í Noregi, Marc Nathanson, er hér um hefðbundna heimsókn að ræða. „Heimsóknir kafbáta eru hluti af löngum samstarfstíma okkar og Noregs með það fyrir augum að tryggja stöðugleika á svæðinu,“ segir sendiherra.

Lætur hann þess enn fremur getið að Healy, stærsta strandgæsluskip Bandaríkjanna, komi til Tromsø í október. Er Healy um 130 metrar á lengd og er auk þess ísbrjótur, einn þeirra fullkomnustu sem Bandaríkin hafa á að skipa.

Nyrsti fasti viðverustaðurinn

Áður en árið er úti stendur til að Bandaríkjamenn opni sendierindrekaskrifstofu í höfuðborg Norður-Noregs, Tromsø, en hana boðaði Anthony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, við heimsókn sína til Noregs í júní. Er skrifstofunni ætlað að tryggja samstarf ríkjanna sem að sögn Blinkens er norðurslóðum mikilvægt. Skrifstofan verður nyrsti fasti viðverustaður bandarískrar stjórnsýslu í heiminum.

Fjöldi bandarískra herfleyja heimsækir Tromsø jafnan árlega og við sjóheræfinguna Flortex 22 í fyrra voru herskip margra bandalagsríka á norsku hafsvæði. Þá er skammt að minnast heimsóknar stærsta herskips heims, flugmóðurskipsins USS Gerald R. Ford, til Óslóar og Tromsø í sumar meðan á flugheræfingunni Arctic Challenge Exercise stóð.

NRK

The Barents Observer

Navy.mil

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert