Draumurinn sem varð að martröð

Sjaldan verður ósinn eins og uppsprettuna dreymir. Eina notagildi draumafleyjanna …
Sjaldan verður ósinn eins og uppsprettuna dreymir. Eina notagildi draumafleyjanna Sonju Henie og Thor Heyerdahl er að vera varahlutalager fyrir Norwegian, glæst flaggskip áður en heimsfaraldur skall á. Ljósmynd/Airtrade Aviation

Boeing 787 Dreamliner, draumafley Boeing-verksmiðjanna, snerist upp í hreina martröð í höndum norska lággjaldaflugfélagsins Norwegian. Draumaflugförin Sonja Henie og Thor Heyerdahl hvíla nú á jörðu niðri og bíða þeirra einu örlaga að vera notuð í varahluti.

Fyrstu 787-vélarnar komu til Noregs fyrir áratug og var ætlað að valda straumhvörfum í sögu norskra lággjaldaflugfélaga. Var þó þar um að ræða minnstu gerðir Dreamliner-vélanna en Bjørn Kjos, þáverandi forstjóri Norwegian, batt miklar vonir við þær.

Fáir gerðu þó ráð fyrir heimsfaraldri kórónuveiru og fóru leikar svo að öllum vélunum, að tveimur undanskildum, var skilað til fyrirtækisins sem þær voru teknar á leigu frá, DP Aircraft Ireland.

Hreyflar til vandræða

Þetta játar Esben Thuman, upplýsingafulltrúi Norwegian, fyrir norska ríkisútvarpinu NRK. „Norwegian skilaði flugvélunum til eiganda í maí 2021,“ segir Thuman.

Helsti kosturinn sem Norwegian sá við nýju Dreamliner-vélarnar var minni rekstrarkostnaður, þær brenndu um 20 prósent minna eldsneyti en forverinn, Boeing 767 sem þó var svipuð að stærð.

Vandræðin hófust nánast fyrsta daginn. Rolls-Royce-hreyflar nýju draumavélanna hitnuðu allt of mikið og slitnuðu þar af leiðandi hraðar en hreyflar fyrri véla Norwegian. Þá reyndist varahlutaþjónusta Boeing ekki upp á sitt besta, þar voru hvorki til varahlutir né nýir hreyflar.

Ofan á þetta bættist sú staðreynd að fjöldi flugfélaga notar Boeing 787 enn og þar með urðu varahlutir úr vélum sem hætt er að nota enn torsóttari. Stjórnendur Norwegian tóku sér þá eins árs umhugsunarfrest til að ákveða hver örlög einu tveggja vélanna, sem félagið í raun á, yrðu. Þær standa nú í flugskýli og verða notaðar í það eina sem þær þykja burðugar til – í varahluti.

Ofan á allt annað eiga Boeing-verksmiðjurnar skrokka Dreamliner-vélanna tveggja svo Norwegian getur aðeins ráðstafað hluta þeirra í varahluti. Thuman upplýsingafulltrúi segir að lokum að engin mygla finnist þó í flugvélunum, þær hafi verið hitaðar upp að innan á geymslutímanum til að fyrirbyggja slíkt.

Eftir stendur þó að Dreamliner-ævintýri Norwegian reyndist martröð frekar en draumur.

NRK

Forbes

Aviacionline

mbl.is