Snúinn niður fyrir utan leikskóla barna sinna

Adam Dyrvig Tatt var snúinn niður fyrir utan leikskóla barna …
Adam Dyrvig Tatt var snúinn niður fyrir utan leikskóla barna sinna fyrir að hafa verið í símanum við hjólreiðar. Skjáskot/DR1

43 ára danskur karlmaður var handtekinn á ofbeldisfullan hátt fyrir að hafa verið í símanum á meðan hann hjólaði. Danska ríkisútvarpið birtir myndband af handtöku mannsins, sem er blaðamaður og heitir Adam Dyrvig Tatt. 

Tatt var á leiðinni að sækja börn sín í leikskólann á miðvikudag þegar lögregla stöðvaði hann, þar sem hann var að tala í símann með heyrnartól og hélt á símanum í annari hendi. Í myndbandinu heyrist Tatt öskra: „Hjálp! Ég get ekki andað.“ 

„Ég missti mig þá“

„Ég fæ hné í bakið og mér er haldið niðri. Á þeim tímapunkti fannst mér þetta svo ofbeldisfullt. Ég ligg þarna fyrir framan leikskóla barna minna eftir að hafa bara verið á hjóli, mér fannst ég ekki hafa gert neitt rangt,“ segir hann í samtali við danska ríkisútvarpið, DR1.

Hann segist hafa legið á jörðinni og ekki geta veitt mótspyrnu þar sem lögreglumenn lágu á höndum hans og einn þeirra hafi stungið fingri undir kjálkann hans.

„Á einum tímapunkti finn ég fyrir piparspreyinu í auganu. Ég var gjörsamlega í sjokki. Á þeim tímapunkti hvílir svo mikil þyngd á mér og mér finnst ég vera að kafna. Ég gat ekki andað og ég missti mig þá.“

Með fjórar ákærur á bakinu

Uppi situr Tatt með fjórar ákærur á bakinu; tvær fyrir að hafa verið í símanum við hjólreiðar og tvær fyrir hótanir, ofbeldi og mótspyrnu gegn lögreglu.

Spurður hvort hann hefði getað komið í veg fyrir þessi ósköp segir Tatt:

„Í rauninni þá er það ekki mitt hlutverk að beita meðalhófi heldur lögreglumannanna. Þeir eru með sérþjálfun og geta beitt mig valdi. Og mér finnst þeim mistakast í því, hrapallega.“

Málið er komið á borð sjálfstæðrar stofnunar um eftirlit með lögreglu. Lögreglan í Kaupmannahöfn segir í skriflegu svari til DR1 að almennt beiti lögregla ekki valdi umfram það sem nauðsynlegt og eðlilegt er en neitar að tjá sig um málið að svo stöddu.

mbl.is