Úðuðu málningu á Brandenborgarhliðið

Brandenborgarhliðið var útatað málningu.
Brandenborgarhliðið var útatað málningu. AFP

Aðgerðarsinnar úr loftlagshópnum Last Generation, sem á íslensku mætti þýða sem Síðasta kynslóðin, úðuðu málningu á hið þekkta Brandenborgarhlið í Berlín í Þýskalandi í dag. Hvöttu þau til þess að notkun á jarðefnaeldsneyti verði hætt og farið verði í aðgerðir gegn loftlagsbreytingum.

Aðgerðarsinnarnir úðuðu hliðið með rauðri og appelsínugulri málningu og breiddist málningin út á Pariser-torgið, sem er fyrir framan hliðið.

„Við verðum að losna við bensín, gas og kol eigi síðar en árið 2030. Það er kominn tími til að kanslarinn Olaf Schol tali skýrt,“ sagði Marion Fabian, talsmaður Síðustu kynslóðarinnar í yfirlýsingu en þúsundir loftlagsmótmælenda hvöttu um helgina ríkisstjórn Scholz til að grípa til frekari aðgerða til að loftlagsmarkmið náist í landinu.

Lögreglan sagði í viðtali við AFP-fréttaveituna að 14 manns hafi verið handteknir en ekki hafi komið til neinna átaka.

mbl.is