Ástandið versnar í Rússlandi

Skýjakljúfar Moskvuborgar. Mannréttindi í landinu eru minna virt nú en …
Skýjakljúfar Moskvuborgar. Mannréttindi í landinu eru minna virt nú en áður, segir í nýrri skýrslu. AFP

Mannréttindi í Rússlandi eru sífellt meira fótum troðin eftir að her landsins réðst inn í grannríkið Úkraínu á síðasta ári.

Frá þessu greinir Maríana Katsaróva, sérstakur rannsakandi Sameinuðu þjóðanna í rússneskum mannréttindamálum, í fyrstu skýrslu sinni í dag.

Átelur hún þar stöðugar pyntingar og kynferðisofbeldi í landinu og tekur fram að stjórnvöld í Kremlinni hafi farið af stað í miklar aðgerðir gegn stjórnarandstæðingum eftir að innrásin var gerð í febrúar í fyrra.

„Mannréttindaástandinu í rússneska sambandsríkinu hefur hnignað verulega frá því það réðst inn í Úkraínu,“ segir í skýrslu Katsaróvu.

Grafið undan sjálfstæði dómstóla

Bent er á að hnignunin komi í kjölfar annars hnignunarskeiðs sem varað hafi í um tvo áratugi.

Rússnesk yfirvöld hafi „alvarlega skert félagafrelsi, frelsi til að koma saman og tjáningarfrelsi“, og grafið undan sjálfstæði dómstóla og meginreglunni um réttláta málsmeðferð.

Katsaróva varar við því að aðgerðum yfirvalda sé beint tilviljunarkennt að gagnrýnendum ríkisstjórnarinnar og friðsamlegir mótmælendur beittir ofbeldi.

„Þyngd nýlegra refsidóma hefur aukist og þeim hefur fjölgað sem sakfelldir eru á grundvelli pólitískra ákæra,“ segir í skýrslunni, sem byggð er á viðtölum við fleiri en sextíu rússneska og alþjóðlega mannréttindahópa og -sérfræðinga, og næstum hundrað skriflegum ábendingum.

mbl.is