Bandaríkjaher óskar eftir aðstoð almennings við að staðsetja F-35 orrustuþotu í kjölfar þess að flugmaðurinn skaut sér úr flugvélinni. Vélin er útbúin þannig að hún sést ekki á ratsjám.
Vélin týndist á sunnudag þegar henni var flogið yfir sunnanverða Suður-Karólínu í Bandaríkjunum. Flugmaðurinn, sem hefur enn ekki verið nafngreindur, skaut sér úr vélinni og lenti örugglega með hjálp fallhlífar. Ástand flugmannsins er stöðugt.
Enn er óvíst hvað gerðist en yfirvöld segja að flugvélin hafi lent í „óhappi“ og nú miði leitirnar helst við tvö stöðuvötn norður af borginni Charleston, Moultrie-vatn og Marion-vatn.
Vélin er framleidd af Lockheed Martin og kostar um 80 milljónir bandaríkjadala, sem samsvarar um 10 milljörðum kr., samkvæmt AFP-fréttaveitunni.
Svipaðar vélar voru hér á landi snemma árs.