„Ég sá dauðann“

Björgunarfólk á ferð í Derna í dag. Stórir hlutar borgarinnar …
Björgunarfólk á ferð í Derna í dag. Stórir hlutar borgarinnar eru rústir einar eftir mannskætt stórflóð 10. september. AFP/Mahmud Turkia

„Ég greip bara gleraugun mín og símann og forðaði mér á meðan vatnið skók hurðina eins og jarðskjálfti væri skollinn á.“ Þetta segir Abdel Moneim Awad al-Sheikh í samtali við AFP-fréttastofuna er hann rifjar upp flóð sem kostaði 3.283 mannslíf í líbýsku borginni Derna 10. september.

Hafði al-Sheikh, sem er 73 ára gamall, þá vaknað við skelfingaróp nágranna sinna og tókst að forða sér ásamt fjölskyldu sinni upp á efstu hæð hússins. Horfðu þau þaðan með skelfingu á þegar flóðbylgja, knúin gríðarlegri úrkomu, sópaði með sér heilum byggingum, bifreiðum og fólki. Margir bárust með flóðbylgjunni langt út í Miðjarðarhafið og drukknuðu þar ef þeir voru ekki þegar látnir eftir óblíð tök vatnsflaumsins.

Missti alla fjölskyldu sína

Nú, viku síðar er stórsködduð byggingin, þar sem al-Sheikh og fjölskylda hans bjuggu, eiginkona, tveir synir þeirra og fjölskyldur sonanna, þakin þornaðri leðju.

Fjölskyldan hafðist við á þaki hússins, sem er fjögurra hæða, til morguns og blasti eyðileggingin í hverfinu þeirra þá við þeim í þessari 100.000 íbúa borg þar sem rúmlega þrjú prósent bæjarbúa biðu hel í flóðinu. Um morguninn komu stórir hópar sjálfboðaliða á vettvang til björgunarstarfa.

Örmagna björgunarmenn hvíla lúin bein í Derna þar sem þúsunda …
Örmagna björgunarmenn hvíla lúin bein í Derna þar sem þúsunda er enn saknað eftir flóðið 10. september. AFP/Mahmud Turkia

„Einn þeirra hafði misst alla fjölskyldu sína,“ segir al-Sheikh hrærður en ekki eru öll kurl komin til grafar hvað endanlegan fjölda látinna áhrærir, þúsunda er enn saknað.

Mohamed al-Zawi er 25 ára. Hann rifjar upp hvernig húsgögn heimilisins flutu um stofuna með hækkandi vatnsborði þar inni. Fyrsta bylgja flóðsins hafi ekki risið mikið upp fyrir gangstéttina en sú næsta hafi náð upp að þriðju hæð hússins. Kveðst al-Zawi hafa séð „vegg af vatni sem hreif með sér ökutæki, fólk og lausamuni aðra [...] allt endaði bara úti í sjó“.

Lík sem hráviði

Augljóst er, að sögn blaðamanns AFP, að al-Zawi er enn í hálfgerðu áfalli á viðtalsstundu. „Við höfðum fengið viðvörun daginn áður um að von væri á mikilli úrkomu og að við skyldum halda okkur heima við – en ekkert meira var sagt,“ rifjar hann upp.

Þegar al-Zawi leit niður af þaki húss síns eftir að flóðið sjatnaði sáu þau fjölskyldan 25 eða 30 lík sem þar lágu sem hráviði.

Eins og sjá má eirði flóðbylgjan í Derna engu.
Eins og sjá má eirði flóðbylgjan í Derna engu. AFP/Mahmud Turkia

„Ég sá dauðann,“ segir Mohamed Abdelhafiz, fimmtugur líbanskur maður sem búið hefur um áratuga skeið í Derna. Kveður hann jörð hafa skolfið að kvöldi 10. september og þegar hann hljóp út á svalir heimilis síns sá hann sér til skelfingar að vatnið náði þegar upp að þeim. Segir hann að eftir að mesta vatnið hafi runnið sína leið út í sjó hafi mörg hús í hverfi hans verið horfin, aðeins berangurslegt drullusvað hafi blasað við þar sem þau stóðu.

mbl.is

Bloggað um fréttina