Indverska ríkið gæti hafa staðið að morði í Kanada

Justin Trudeau forsætisráðherra Kanada.
Justin Trudeau forsætisráðherra Kanada. AFP

Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, segir að indverska ríkisstjórnin gæti hafa staðið á bak við morð á kanadískum ríkisborgara á kanadískri grund. Hátt settum indverskum diplómata hefur verið vísað úr landi vegna málsins.

Hardeep Singh Nijjar, einn leiðtogi samfélags Síka í Kanada, var skotinn til bana fyrir utan síkamusteri í fylkinu Bresku Kólumbíu, þann 18. júní.

Trudeau segir nú að kanadíska leyniþjónustan hafi fundið trúverðugar vísbendingar sem tengja dauða Nijjars við indverska ríkið. Hann segist hafa borið málið upp við Narendra Modi á G20-leiðtogafundinum sem haldinn var í síðustu viku.

„Öll aðild erlendra stjórnvalda að morði kanadísks ríkisborgara á kanadískri grund er óviðunandi brot gegn okkar fullveldi,“ sagði Trudeau á fundi neðri málstofu kanadíska þingsins.

„Það brýtur í bága við þær grundvallar reglur sem frjáls, opin og lýðræðisleg samfélög haga sér eftir,“ bætti hann við.

Sakaður um að vera hryðjuverkamaður

Nijjar var áberandi leiðtogi Síka í fylkinu og sterkur talsmaður Khalistan-hreyfingarinnar. Hreyfingin beitir sér fyrir því að stofnað verði sjálfstætt ríki Síka. Slíkt ríki var síðast til á átjándu og nítjándu öld og var það staðsett á landsvæði sem nú tilheyrir Pakistan annars vegar en Punjab-ríki Indlands hins vegar.

Stuðnings menn Nijjars hafa sagt að hann hafi fengið fjölda hótana vegna ummæla hans. Indverska ríkið hefur áður kallað hann hryðjuverkamann og að hann hafi leitt herflokk aðskilnaðarsinna – ásakanir sem stuðningsmenn hans kalla „tilhæfulausar“.

Diplómata vísað til dyra

Melanie Joly, utanríkiráðherra Kanada, tilkynnti einnig í dag að indverskum diplómata yrði vísað úr landi.

„Ásakanir um að erindreki erlendrar ríkisstjórnar gæti hafa tengst morði á kanadískum ríkisborgara hér í Kanada […] eru gjörsamlega óásættanlegar,“ sagði Joly.

„Þess vegna höfum við í dag vísað hátt settum diplómata úr Kanada,“ bætti hún við en nafngreindi þó ekki diplómatann.

Melanie Joly, utanríkisráðherra Kanada.
Melanie Joly, utanríkisráðherra Kanada. AFP/Kim Min-Hee
mbl.is