Ofboðið yfir viðbrögðum skólayfirvalda

„Við erum reið og ofboðið eftir að hafa borist þessi …
„Við erum reið og ofboðið eftir að hafa borist þessi bréf,“ sagði Beatrice, móðir Nicolasar, í samtali við AFP-fréttastofuna. Ljósmynd/Colourbox

Foreldrar fimmtán ára drengs sem framdi sjálfsvíg eftir að hafa orðið fyrir einelti í skóla í Frakklandi, segjast ofboðið yfir köldum viðbrögðum skólayfirvalda.

Þeim hefur m.a. borist bréf þar sem þau eru vöruð við að lenda í fangelsi vegna rógburðar.

Nicolas, drengurinn sem um ræðir, tók sitt eigið líf 5. september, degi eftir að hafa snúið til baka í skóla úr sumarfríi.

Hvött til að tileinka sér uppbyggilegt viðhorf

Drengurinn hafði nýverið flust milli skóla og átti að hefja nýja önn í París, eftir að hafa kvartað undan einelti í sínum gamla skóla í Poissy í Yvelines-héraðinu, suðvestur af höfuðborginni.

Frekar en að bregðast við eineltinu sendu skólayfirvöld í Yvelines foreldrunum bréf þar sem þau sögðu yfirlýsingar þeirra „óásættanlegar“ og þeir hvattir til þess að tileinka sér „uppbyggilegt“ viðhorf.

Þá voru foreldrarnir minntir á að rógburður væri saknæmt athæfi í Frakklandi sem varðaði allt að fimm ára fangelsisvist og sekt upp á 45 þúsund evrur, eða því sem nemur 6,5 milljónum íslenskra króna.

Barst foreldrunum einnig bréf frá stjórnendum skólans í Poissy, þar sem yfirlýsingum þeirra var vísað á bug.

„Við erum reið og ofboðið eftir að hafa borist þessi bréf,“ sagði Beatrice, móðir Nicolasar, í samtali við AFP-fréttastofuna.

„Faðir Nicolasar og ég skildum þetta ekki. Við skiljum það ekki enn,“ bætti hún við.

Bréfin skammarleg

Bréfasendingarnar hafa þótt afar umdeildar og skömm fyrir frönsku ríkisstjórnina, sem hefur gefið sig út fyrir að leggja mikið kapp á að berjast gegn einelti.

Gabriel Attal, menntamálaráðherra Frakklands, sagði bréfin vera skammarleg. Þá sagði Elisabeth Borne, forsætisráðherra Frakklands, málið vera mikið áfall.

Móðirin kvaðst þakklát fyrir viðbrögð ríkisstjórnarinnar, sem hún sagði vera ákveðna viðurkenningu á þjáningu sonar síns. 

mbl.is