Rússar og Úkraínumenn deila um þjóðarmorð

Friðarhöllin í Haag, aðsetur Alþjóðadómstólsins. Þar takast Úkraínumenn og Rússar …
Friðarhöllin í Haag, aðsetur Alþjóðadómstólsins. Þar takast Úkraínumenn og Rússar nú á um hugtakið þjóðarmorð í máli sem fyrst og fremst snýst um hvort dómstóllinn hafi lögsögu til að skipa Rússum að láta af hernaði í Úkraínu. Ljósmynd/Wikipedia.org/Velvet

Úkraínumenn og Rússar eigast nú við í máli sem rekið er fyrir Alþjóðadómstólnum í Haag í Hollandi. Höfðuðu úkraínsk stjórnvöld málið tveimur dögum eftir innrás Rússa í febrúar í fyrra og mótmæla þar þeirri fullyrðingu Rússa að þjóðarmorð í Austur-Úkraínu hafi verið átylla Rússa til að gera innrásina.

Gennady Kuzmin, lögmaður rússneskra stjórnvalda fyrir dómstólnum, segir ekkert fjær sannleikanum en sú fullyrðing úkraínskra stjórnvalda að Rússar hafi misnotað sér þjóðarmorðssáttmála Sameinuðu þjóðanna sem afsökun fyrir innrásinni.

Vladimír Pútín Rússlandsforseti rökstuddi innrásina í fyrra að hluta með því að hópar hliðhollir Rússum hefðu sætt „níðingsskap og þjóðarmorði af höndum stjórnarinnar í Kænugarði“.

Saga og kennisetningar nasista

Þessu mótmæla Úkraínumenn harðlega í málflutningi sínum og saka Rússa á móti um að notkun þeirra á hugtakinu þjóðarmorð sem átyllu fyrir innrásinni brjóti gegn fyrrnefndum sáttmála. Segir Kuzmin lögmaður að almennar yfirlýsingar um þjóðarmorð standist ekki alþjóðalög, þar á meðal sáttmálann.

„Hvað yfirlýsingar um áhyggjur af hótun um þjóðarmorð snertir höfðu þeir [Rússar] eðlilega stefnu stjórnvalda í Kænugarði í huga sem sitja föst í sögu, kennisetningum og aðferðafræði nasista,“ sagði Kuzmin úr sæti sínu, aðeins fáeina metra frá lögmannateymi Úkraínu í dómsalnum.

Snýst málið fyrir Alþjóðadómstólnum einkum um hvort hann hafi lögsögu til að skipa Rússum að stöðva hernað sinn í Úkraínu. Kuzmin hvetur dómendur til að vísa málinu frá með þeim rökum að þjóðarmorðssáttmáli SÞ snúist um að fyrirbyggja þjóðarmorð og refsa fyrir þau, hvorugt eigi við í máli Úkraínu.

Segja dómstólinn skorta lögsögu

„Úkraína er ekki að saka Rússland um þjóðarmorð. Úkraína er heldur ekki að ásaka Rússland um að hafa látið undir höfuð leggjast að koma í veg fyrir eða refsa fyrir þjóðarmorð,“ sagði Kuzmin og benti enn fremur á að Úkraínumenn neiti því staðfastlega að þjóðarmorð hafi átt sér stað sem eitt og sér ætti að vera næg ástæða til frávísunar. „Ef ekkert þjóðarmorð átti sér stað getur ekki verið um brot gegn þjóðarmorðssáttmálanum að ræða,“ sagði hann.

Úrlausnir Alþjóðadómstólsins eru bindandi fyrir málsaðila en dómstóllinn býr hins vegar ekki yfir neinu úrræði til að knýja fram efndir.

Úr dómsal Alþjóðadómstólsins. Hér má sjá fulltrúa Kólumbíu, vinstra megin, …
Úr dómsal Alþjóðadómstólsins. Hér má sjá fulltrúa Kólumbíu, vinstra megin, bíða úrskurðar dómaranna, hægra megin, í júlí í deilu Kólumbíu og Níkaragúa um olíu- og fiskiríkt svæði í Karabíska hafinu. AFP/Utanríkisráðuneyti Kólumbíu

Rússar halda því fram að dómstólinn skorti lögsögu í málinu á þeim forsendum að þjóðarmorðssáttmálinn eigi ekki við í máli Úkraínu.

Fulltrúar rúmlega þrjátíu landa munu frá og með miðvikudegi eiga þess kost að leggja fram stuðningsyfirlýsingar við Úkraínu. Dómstóllinn hafnaði hins vegar beiðni bandarískra stjórnvalda sem vildu gerast aðilar að málinu.

Reiknað er með að dómstóllinn taki sér fleiri mánuði til að komast að niðurstöðu um hvort hann eigi lögsögu í máli Rússa og Úkraínumanna.

mbl.is