Allt á suðupunkti í Nagorno-Karabakh

Þetta er í þriðja sinn sem nágrannaríkin lenda í átökum …
Þetta er í þriðja sinn sem nágrannaríkin lenda í átökum vegna Nagorno-Karabakh. Hér má sjá mynd frá 2020 þegar hernaðargerðir voru síðast í gangi í héraðinu. AFP

Varnarmálaráðuneyti Aserbaídsjan segir að hersveitir landsins hafi hafið aðgerðir gegn „hryðjuverkahópum“ í Nagorno-Karabakh, sem er undir stjórn Armena. 

Undanfarna mánuði hefur ríkt mikil spenna á svæðinu sem alþjóðasamfélagið viðurkennir að sé hluti af Aserbaídsjan. 

Heyrst hefur í loftvarnarflautum og sprengingum í helstu borg svæðisins. Fram kemur í erlendum fjölmiðum að ellefu aserskir lögreglumenn hafi m.a. látið lífið þegar jarðsprengja sprakk. 

Talsmenn varnarmála í héraðinu segja að hersveitir Aserbaídsjan hafi rofið gildandi vopnahlé með stórskotaliðsárásum. Talsmaður svæðisstjórnarinnar segir enn fremur að Aserbaídsjan hafi hafið meiriháttar hernaðaraðgerðir á svæðinu.

Samband nágrannaríkjanna Aserbaídsjan og Armenía hefur verið stormasamt í gegnum tíðina en ríkin hafa í tvígang farið í stríð hvort gegn öðru vegna Nagorno-Karabakh. Fyrst snemma á tíunda áratugnum eftir fall Sovétríkjanna og svo aftur árið 2020.

Frá því í desember hafa Aserar lokað einu leiðinni inn og út af svæðinu frá Armeníu, sem kallast Lachin-gangurinn.

Varnarmálaráðuneytið í Aserbaídsjan sakar Armena um kerfisbundnar stórskotaliðsárásir á sínar hersveitir og við því hafi verið brugðist með því að hefja aðgerðir gegn hryðjuverkahópum. Markmiðið væri að hrekja hersveitir Armena á brott af svæðum sem tilheyra Aserbaídsjan.

Þá heldur ráðuneytið því fram að ekki sé verið að gera árásir á saklausa borgara eða almenna innviði. Aðeins væri verið að ráðast á lögmæt hernaðarleg skotmörk með nákvæmum vopnum. 

mbl.is