Biden lýsti yfir sakleysi sínu

Feðgarnir Joe og Hunter Biden.
Feðgarnir Joe og Hunter Biden. AFP

Hunter Biden, sonur Joe Bidens Bandaríkjaforseta, lýsti yfir sakleysi sínu þegar hann svaraði sakargiftum vegna meintra vopnalagabrota. Er honum gefið að sök að hafa logið til um edrúmennsku sína þegar hann keypti byssu í októbermánuði árið 2018. 

Samkvæmt vopnalagalöggjöf í Delaware, þar sem dómstóll tekur mál Bidens fyrir, er óheimilt að bera byssu undir áhrifum fíkniefna sem og að sækja um heimild til byssukaupa á meðan neyslutímabili stendur. Viðurlögin eru allt að 25 ára fangelsi.

Hunter Biden kom fram í fjölmiðlum árið 2020 þar sem …
Hunter Biden kom fram í fjölmiðlum árið 2020 þar sem hann lýsti áralangri baráttu sinni við ofnotkun áfengis og fíkniefna. AFP

Henti byssunni í ruslið 

Biden hefur um árabil glímt við áfengis- og krakkfíkn. Er hann sagður hafa keypt sér byssu af gerðinni Colt um tveimur mánuðum eftir að hann kom úr einni af mörgum meðferðarúrræðum sem hann hefur leitað til. Var það skömmu eftir fráfall Beau Bidens bróður hans sem lést af völdum heilaæxlis.

Málið komst upp eftir að Hallie, ekkja Beau fann byssuna í bíl Hunters og henti henni í ruslatunnu af ótta við að Hunter myndi valda sér skaða með henni.

Vegfarandi fann byssuna og skilaði henni til verslunarinnar sem seldi Biden vopnið. Forsvarsmenn verslunarinnar gerðu lögreglu í Delaware viðvart í framhaldinu eins og lög gera ráð fyrir.

Hafi logið á umsókn sinni  

Við eftirgrennslan vöknuðu upp spurningar um það hvort Biden hafði logið til um að vera ekki undir áhrifum eiturlyfja þegar hann gerði umsókn til að fá heimild til að kaupa byssuna.

Þó viðurlögin séu allt að 25 ára fangelsi segja lögspekingar að fáir sem kærðir eru fyrir sambærilegan glæp endi í fangelsi. Hvað þá maður með hreina sakarskrá. Átti hann vopnið í um tvær vikur í heild auk þess sem hann er ekki sagður hafa notað vopnið nokkru sinni.

mbl.is
Loka