Danskur listamaður „tók peningana og hljóp“

Listaverkið „Take the money and run“ hefur verið umdeilt í …
Listaverkið „Take the money and run“ hefur verið umdeilt í danska listheiminum seinustu misseri. AFP

Dönskum listamanni, sem fékk úthlutað fé frá dönsku listasafni og skilaði síðan auðum strigum til sýningar á safninu, hefur verið skipað að endurgreiða safninu meirihluta peningsins sem hann fékk.

„Take the money and run“ nefnist listaverk danska listamannsins Jens Haaning, en hann fékk greiddar rúmlega 532 þúsund danskra króna, eða um tíu milljónir króna, frá listasafni í Álaborg til þess að setja upp sýningu á safninu.

Peningurinn átti að tákna meðallaun á ári í Danmörku og Austurríki en nafn verksins, sem þýða mætti sem „Taktu peningana og hlauptu“ kemur til vegna þess að listamaðurinn skilaði safninu auðum strigum.

Safnið græddi „miklu, miklu meiri“ pening

Safnið fór í mál við Haaning og dómstólar í Danmörku kvöddu upp dóm sinn í gær. Er honum gert að greiða safninu 492 þúsund danskar krónur til baka, eða um 9,6 milljónir króna, sem jafngildir því sem safnið greiddi honum fyrir verkið, þegar búið er að draga frá uppsetningarkostnað og þóknun listamannsins.

Forstjóri safnsins Lasse Andersson hafði áður sagt við AFP-fréttaveituna að hann hefði hlegið að verkinu og ákvað að sýna þau á safninu samt sem áður. Hins vegar myndi safnið stefna Haaning fyrir dóm ef hann borgaði ekki peninginn til baka, sem hann harðneitaði að gera.

Haaning sagði við danska miðilinn TV2 eftir að búið var að dæma í málinu að safnið hefði grætt „miklu, miklu meiri“ pening en það hafi í upphafi fjárfest í verkinu, þökk sé mikillar umræðu sem skapaðist í kringum verkið á sínum tíma.

mbl.is