Indversk stjórnvöld neita ásökunum um morð

Stirt var á milli leiðtoganna á G20-leiðtogafundinum í Nýju Delí …
Stirt var á milli leiðtoganna á G20-leiðtogafundinum í Nýju Delí í síðustu viku. AFP

Indversk stjórnvöld neitar alfarið ásökunum kanadíska forsætisráðherrans, Justin Trudeau, um aðkomu þeirra að morðinu á kanadísk­um rík­is­borg­ara á kanadískri grund.

Fórnalambið var Har­deep Singh Nijj­ar, einn leiðtogi sam­fé­lags síka í Kan­ada, en hann var skot­inn til bana fyr­ir utan sík­amu­steri í fylk­inu Bresku Kól­umb­íu, þann 18. júní. Niijar hafði lengi talað fyrir myndun sjálfstæðs síka-ríkis í norðurhluta Indlands. 

Trudeau kom öllum að óvörum í gær er hann sagði kanadísku leyniþjónustuna hafa upplýsingar þess efnis að indverska ríkisstjórnin hefði komið að dauða Niijars, en ríkisstjórnin hafði sakað Niijar um hryðjuverk á Indlandi. Var hátt settum, en ónefndum, indverskum diplómata vísað úr landi í kjölfarið.

Hafa áhyggjur af afskiptum kanadískra diplómata

Utanríkisráðuneyti Indlands segir ásakanir Trudeaus fjarstæðukenndar í tilkynningu í dag.

„Við erum lýðræðislegt ríki sem leggur ríka áherslu á lög og reglu,“ segir í tilkynningunni, en indversk stjórnvöld hafa brugðist við brottvísun indverska diplómatans með því að vísa kanadískum diplómata úr landi.

Sögðu indversk stjórnvöld ástæðu brottvísunarinnar vera vaxandi áhyggjur af afskiptum kanadískra diplómata af innanlandsstefnum og þátttöku diplómatanna í aðgerðum gegn Indlandi.

Munu ávalt standa vörð um frelsi

Kvaðst kanadíski forsætisráðherrann hafa borið málið upp við forseta Indlands, Nar­endra Modi, á G20- leiðtogafundinum í síðustu viku.

Sambandið milli Kanada og Indlands hefur verið stirt um nokkurt skeið, en stærsta samfélag síka utan Indlands er í Kanada. Hefur Indland lengi verið óánægt með umburðarlyndi Kanadamanna í garð aðskilnaðarsinnaðra síka.

Trudeau tjáði fjölmiðlum í gær að Kanada myndi ávalt standa vörð um „málfrelsi, hugsanafrelsi og frelsi til friðsamlegra mótmæla,“ til að vinna gegn hatri.

mbl.is