Mannskæð árás virðist hafa verið óhapp

Úkraínskur hermaður á vettvangi harmleiksins fyrr í mánuðinum.
Úkraínskur hermaður á vettvangi harmleiksins fyrr í mánuðinum. AFP

„Sex­tán eru látn­ir og tutt­ugu slasaðir eft­ir loft­árás á markað í úkraínsku borg­inni Kostjantínívka í Dó­netsk-héraði. Eitt barn er meðal hinna látnu.“

Þannig hljóðaði frétt á vef mbl.is 6. september, af einu mannskæðasta atvikinu í Úkraínu síðustu mánuði.

Nú, þegar fleiri kurl eru komin til grafar, er ljóst að fimmtán létust og fleiri en þrjátíu særðust.

Geta villst af leið fyrir margar sakir

En að sama skapi þykir sífellt ljósara að Rússar stóðu ekki að árásinni, heldur megi rekja harmleikinn til bilunar í eldflaugavarnakerfi Úkraínumanna.

Þetta sýna gögn sem dagblaðið New York Times hefur safnað saman og rýnt. Þar á meðal eru brot úr eldflauginni, myndir úr gervihnöttum, vitnisburðir sjónarvotta og færslur á samfélagsmiðlum.

Þykja þau gefa sterklega til kynna að það sem áður var talið árás hafi í raun verið sorglegt óhapp. Loftvarnasérfræðingar tjá blaðinu að eldflaugar á borð við þessa geti villst af leið fyrir margar sakir.

Óhappið varð á miðju átakasvæði. Herlið Rússa hafði látið sprengjum rigna á Kostjantínívka nóttina áður og vitni sögðu frá árás úkraínsks stórskotaliðs aðeins nokkrum mínútum áður en eldflaugin hafnaði á markaðinum.

mbl.is