Meintur Norðmaður fannst látinn

Spænska lögreglan rannsakar líkfund í Malaga og Kripos í Noregi …
Spænska lögreglan rannsakar líkfund í Malaga og Kripos í Noregi er til aðstoðar. Ljósmynd/Wikipedia.org

Kona á þrítugsaldri fannst látin í Torremolinos í Malaga á Spáni aðfaranótt fimmtudags í síðustu viku og hefur norska rannsóknarlögreglan Kripos nú staðfest við ríkisútvarpið NRK að líkast til sé um Norðmann að ræða. Norska dagblaðið VG kveðst þó rétt í þessu hafa fengið staðfestingu frá spænskri lögreglu um að hin látna hafi verið norsk og TV2 slær fram sömu tíðindum.

Rannsakar spænska lögreglan nú málið en sú norska aðstoðar með kennslavinnu og spurningar sem kunna að kvikna Spánarmegin. Meintum ættingjum í Noregi, reynist konan vera sú er grunur leikur á, hefur verið gert aðvart að sögn Kripos. Sé um þessa tilteknu konu að ræða er hún frá Innlandet-fylki en hefur verið búsett á Spáni hið síðasta.

Óska eftir myndefni

Leitaði spænska lögreglan í íbúð konunnar í síðustu viku eftir því sem NRK hefur komist að. Eins ræddi lögregla við nágranna og sýndi þeim Facebook-síðu norskrar konu. Þá hefur lögregla óskað eftir myndefni úr öryggismyndavélum frá tímabilinu 23:00 til 00:50 á svæðinu þar sem konan fannst.

Spænska lögreglan gefur enn ekkert upp um hver konan látna var þar sem ekki hafa verið borin kennsl á hana formlega gegnum fingrafarakerfi þar í landi.

Norska utanríkisráðuneytið staðfestir við NRK að því sé kunnugt um að líklega hafi norskur ríkisborgari látist á Spáni.

NRK

VG

TV2

mbl.is