Risaeðlan Barry er föl

Barry gamli er á leið á uppboð, 150 milljóna ára …
Barry gamli er á leið á uppboð, 150 milljóna ára gamall. Aldrei of seint. Ljósmynd/Hotel Drouot

Barry svokallaður, risaeðla, eða öllu heldur beinagrind risaeðlu, sem dregur nafn sitt af steingervingafræðingnum Barry James sem fann beinagrindina, er nú til sölu og verður boðinn upp í París í október.

Barry var í lifanda lífi sauðeðla, eða camptosaurus, og er beinagrind hans ein sú heillegasta risaeðlubeinagrind sem fundist hefur í heiminum.

Barry fannst í Wyoming í Bandaríkjunum á tíunda áratug síðustu aldar og er 150 milljóna ára gamall eftir því sem næst verður komist. Reiknað er með að Barry fari á 1,2 milljónir evra, jafnvirði um 174 milljóna íslenskra króna á uppboðinu sem haldið verður á Hotel Drouot 20. október.

Barry ekki sá fyrsti

Barry var uppi á júratímabilinu og var 2,1 metri á hæð og fimm að lengd. Að sögn Alexandre Giquello, sem starfa mun við uppboðið, er það ákaflega óvenjulegt að sjá svo heillega beinagrind úr risaeðlu.

Barry er ekki fyrsta risaeðlan sem fer á uppboð, í apríl seldist beinagrind grameðlu, tyrannosaurus rex, í fyrsta sinn í Evrópu og lét prófessor Steve Brusatte við Edinborgarháskóla þá í ljós þær áhyggjur sínar við breska ríkisútvarpið BBC að vísindalega þýðingarmiklar beinagrindur væru að hverfa inn í skápa safnara.

BBC

Reuters

Penta

mbl.is
Loka