Fentanýlskammtur sem varð eins árs gömlu barni að bana var falinn í hvíldarherbergi á dagheimili í New York-borg.
Hinn eins árs gamli Nicholas Dominici hafði aðeins verið á dagheimilinu í viku þegar hann lést. Talið var að hann hafi fengið ofskammt af fentanýli.
Þrjú börn til viðbótar voru send upp á spítala í kjölfar þess að hafa komist í snertingu við eiturlyfið á vöggustofunni, sem er í Bronx-umdæmi New York-borgar.
Tveir einstaklingar hafa verið ákærðir vegna málsins, annars vegar vegna eiturlyfjanna sem fundust og hins vegar fyrir morð.
Lögregla vill meina að börnin, sem eru á aldursbilinu 8 mánaða tið tveggja ára, hafi andað að sér fentanýli á dagheimilinu.
Þrjú börn fengu lyfjaúðann Narcan, er notaður sem neyðarmeðferð við ofneyslu ópíóða.
Bandaríski fjölmiðillinn ABC hafði það á eftir Otoniel Feliz, föður Dominicis, að hann sé enn að vinna úr andláti sonar síns.
„Ég elska hann, ég sakna hans, ég vil fá hann til baka,“ sagði Feliz.
Eftir leit á dagheimilinu fannst kíló af fentanýli undir dýnu þar sem börnin sváfu, segir Joseph Kenny, yfirmaður rannsóknardeildar lögreglunnar í New York. Þá hafi einnig fundist tvær pressur sem notaðar voru til þess að pakka efninu saman.