Finnar prófa stafræn vegabréf

Finnski landamæravörðurinn Mikko Vaisanen sýnir appið fyrir stafræna vegabréfið.
Finnski landamæravörðurinn Mikko Vaisanen sýnir appið fyrir stafræna vegabréfið. AFP/Alessandro Rampazzo

Finnar eru að prófa sig áfram með notkun stafrænna vegabréfa á flugvellinum í höfuðborginni Helsinki.

Þannig vilja þeir hraða ferlinu í landamæraeftirlitinu.

Verkefnið hófst 28. ágúst í beinum ferðum flugfélagsins Finnair til þriggja breskra áfangastaða: London, Manchester og Edinborgar. Stafrænu vegabréfin eru þó einungis notuð í Helsinki.

Að sögn landamæravarðarins og umsjónarmanns verkefnisins Mikko Vaisanen er um að ræða „fyrsta skrefið í átt að því hvernig framtíð ferðalaga getur orðið”.

Finnski landamæravörðurinn Mikko Vaisanen.
Finnski landamæravörðurinn Mikko Vaisanen. AFP/Alesandro Rampazzo

Ferðalangarnir sem vilja taka þátt í þessu prufuverkefni þurfa að hlaða niður sérstöku DTC-appi í snjallsíma sína. Eftir það þurfa þeir að mæta á lögreglustöð í Helsinki þar sem stafræn útgáfa vegabréfa þeirra er búin til.

Að því loknu þurfa ferðalangarnir að senda flugupplýsingar til finnsku landamæragæslunnar í síðasta lagi fjórum tímum fyrir flugferðina. Á flugvellinum fara þeir síðan í sérstaka biðröð fyrir þá sem eru með stafræn vegabréf.

mbl.is