Handtóku 14 ára eineltissegg

Gabriel Attal, ráðherra menntamála.
Gabriel Attal, ráðherra menntamála. AFP/Francois Lo Presti

Fjórtán ára drengur var hendtekinn í skóla í úthverfi Parísar á mánudag vegna eineltis í garð jafnaldra sem er transbarn. Olivier Véran, talsmaður ríkisstjórnarinnar, segir handtökuna vera í takt við stefnu um að taka harðar á eineltisseggjum en gert hefur verið hingað til.

Tilgangurinn sé að senda skilaboð um að kúgandi hegðun verði ekki liðin gagnvart börnum.

Haft er eftir lögreglumanni á AFP fréttaveitunni að drengurinn hafi verið handtekinn vegna eðlis hótananna í garð annars nemanda. Er hann meðal annars sagður hafa hótað því að drepa hann.

Sjónarvottar segja að lögregla hafi komið i skóla drengsins og leitt hann út í járnum. Málið hefur valdið nokkrum deilum í Frakklandi. Ekki síst fyrir handtökuaðferðina.

Málið kemur upp í skugga annars máls þar sem 15 ára drengur drengur svipti sig lífi eftir að hafa kvartað undan langvinnu einelti við skólayfirvöld í París.

Skólinn brást við með því að senda bréf til foreldra drengsins þar sem umkvartanir þeirra voru sagðar óásættanlegar.

Ráðherra menntamála Gabriel Attal kallaði bréfið skammarlegt og lofaði því að taka eineltismál fastari tökum í kjölfar málsins.

mbl.is
Loka