Lögreglumaður í Lundúnum hefur verið ákærður fyrir morð í kjölfar þess að 24 ára svartur maður var skotinn til bana í byrjun september.
Skotvopn lögreglumannsins hefur verið gert upptækt þar til rannsókn á málinu er lokið.
Hann mun mæta fyrir dóm í Lundúnum á þriðjudag, þar sem hann hefur verið ákærður fyrir morðið á Chris Kaba, segir í yfirlýsingu frá IOPC, sem er sjálfstæð stofnun sem rannsakar framferði lögreglumanna.
Samkvæmt yfirlýsingunni lést Kaba nokkrum klukkustundum eftir að hafa verið skotinn einu sinni á meðan hann var að keyra, á Streatham-svæðinu í sunnanverðum Lundúnum.
Fjöldi mótmælenda safnaðist saman fyrir utan höfuðstöðvar lögreglunnar í kjölfar andláts Kaba.
Fjölskylda hans kveðst ánægð með að lögreglumaðurinn, sem enn á eftir að nafngreina, verði ákærður og segir að samfélagið þurfi að sjá „réttlæti fyrir Chris“.
„Chris var mikið elskaður af fjölskyldunni og vinum sínum. Hann átti sér bjarta framtíð,“ segir í tilkynningu frá hans nánustu.
Inquest, góðgerðastarfsemi sem skoðar dauðsföll er tengjast hinu opinbera, segir að 1.870 dauðsföll hafa orðið í Bretlandi frá árinu 1990 í tengslum við gæsluvarðhald eða samskipti við lögreglu.
Aldrei hefur lögreglumaður verið ákærður fyrir morð á þeim tíma og aðeins einn lögreglumaður hefur verið ákærður fyrir manndráp, árið 2021.