Merrick Garland, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, harðneitar því að pólitískar skoðanir hafi hvatt hann til þess að rannsaka Donald Trump, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna. Ýmsir repúblikanar hafa sakað hann um að „vopnvæða“ dómsmálaráðuneytið gegn Trump.
Jack Smith, sem var skipaður af Garland, fer með rannsókn á tveimur af málum Trumps. Garland ítrekar þó að Smith sé hvorki saksóknari á vegum Bidens né þingsins.
„Okkar starf er ekki að fylgja fyrirmælum forseta, þingsins eða einhvers annars um hvern eða hvað eigi að rannsaka,“ kemur fram í ræðu Garlands, sem hann mun flytja seinna í dag.
„Okkar starf er að fylgja staðreyndum og lögum, hvert sem þau leiða. Og það er það sem við gerum.“
Dómsmálaráðuneytið hefur birt hluta úr ræðu Garlands sem hann flytur fyrir dómsmálanefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings í dag. Búist er við því að hann sæti mikla gagnrýni frá repúblikönum í nefndinni, annars vegar fyrir mál Trumps en hins vegar fyrir að draga úr máli Hunters, sonar Bidens.
Repúblikaninn Jim Jordan, formaður dómsmálanefndarinnar, hefur ásakað Garland um að fylgja fyrirmælum Bidens þar sem Trump sé líklegur keppinautur hans í komandi forsetakosningum.
Jordan sagði í bréfi til Garland sem sent var í ágúst að nefndin hefði „alvarlegar áhyggjur af því að herra Smith sé ekki að fara með hlutlausa og fordómalaus rannsókn og saksókn“.