Grunaður raðmorðingi játar sök

Höfuðborg Rúanda.
Höfuðborg Rúanda. AFP/Simon Wohlfahrt

Rúandskur karlmaður á fertugsaldri hefur játað á sig 14 manndráp eftir að fjöldi líka fannst á heimili hans í úthverfi Kigali, höfuðborg Rúanda.

Denis Kazungu, maðurinn sem um ræðir, hefur verið ákærður fyrir fjölmörg brot, þar á meðal manndráp, nauðgun, skjalafals og vanhelgun á líkum.

Réttarsalurinn í Kigali var þéttskipaður þegar Kazungu játaði sök í málinu fyrir dómara.

„Þau sem ég drap höfðu sýkt mig af alnæmi,“ bar Kazungu fyrir sig.

Hola í eldhúsinu

Kazungu var handtekinn fyrr í þessum mánuði eftir að tólf lík fundust í holu í eldhúsinu í húsi sem hann leigði. Voru flest fórnarlambanna konur.

Kazungu, sem bjó einn, viðurkenndi að hafa orðið 14 manns að bana. 

Í framburði hans kom fram að hann hefði leyst upp lík tveggja fórnarlamba sem lögreglan hafði ekki enn fundið.

Nokkrir komust undan

„Eftir að hann lokkaði fórnarlömbin frá skemmtistöðum og inn á heimili sitt, réðst hann skyndilega á þau með barefli, batt þau niður, afklæddi og hafði af þeim eigur þeirra,“ lýsti saksóknarinn.

„Því næst myndi hann neyða þau til þess að gefa upp lykilorð í síma sína og í framhaldinu millifærði hann fjármuni í gegnum símann. Eftir það myrti hann fórnarlömbin og kom líkum þeirra fyrir í holunni.“

Sum fórnarlambanna komust þó undan og gátu þau upplýst lögregluna um árásirnar.

Féllst ekki á beiðnina

Kazung hafði farið fram á að réttarhöldin færu fram fyrir luktum dyrum.

„Glæpirnir sem ég framdi eru mjög alvarlegir og ég vil ekki að smáatriðin rati í fjölmiðla, eða að lýsingarnar veiti öðrum innblástur að feta í fótspor mín,“ sagði Kazung.

Dómarinn féllst þó ekki á beiðnina.

Kazung var handtekinn í júlí á þessu ári grunaður um ýmis brot, m.a. rán og nauðgun. Honum var þó sleppt úr haldi vegna skorts á sönnunargögnum.

Þegar hann var handtekinn að nýju snemma í september viðurkenndi hann brotin fyrir lögreglu.

mbl.is