Tollgæslan í Frakklandi tilkynnti í dag að hún hefði lagt hald á tæplega 400 höfuðkúpur af tegund prímata á aðeins sjö mánuðum. Dýrategundin er friðuð.
Tollverðir á Charles de Gaulle-flugvellinum í París stöðvuðu 392 sendingar á milli maí og desember í fyrra sem innihéldu höfuðkúpur af prímötum. Flestar sendingarnar komu frá Kamerún og voru á leið til Bandaríkjanna.
Einnig lögðu þeir hald á hundruð sendinga til viðbótar sem innihéldu bein og höfuðkúpur annarra tegunda. Engin sending var með merkingu um löglega sölu á friðuðum dýrategundum.
Gilbert Beltran, yfirmaður tollgsælunnar á flugvellinum, segir að smygl á friðuðum tegundum séu ein aðrbærustu ólöglegu viðskipti sem til eru, á eftir vopnum, eiturlyfjum og jú, fólki.
Segir hann að þessi „saurungslegu“ viðskipti framleiði um 8 til 20 milljarða evra á hverju ári.
Tollverðir urðu fyrst varir við höfuðkúpurnar í maí 2022, þegar sjö slíkar fundust í sendingu frá Afríku. Þá efldu þeir leitina og fundu tugi til viðbótar, flestar af stökkapaætt, en þeirri ætt tilheyra bavíaniar, simpansar, makakíapar og mandrílar.
Fabrice Gayet, sérfræðingur í dýrasmygli hjá tollgæslunni, segir að fremdardýrin séu yfirleitt veidd til matar en „salan á beinunum er hliðarverkefni“.
Hann segir að hauskúpur af smærri prímötum seljist á 30 til 50 evrur, stærri hauskúpur á 400-500 evrur og simpansar á 1.000 evrur. Einnig sé hægt að selja leifar af öðrum dýrategundum dýrum dómi, t.a.m. af eðlum, köttum, og ránfuglum.
Náttúruminjasafn Frakklands hefur fengið hauskúpurnar afhentar til frekari rannsóknar.