Markmið um kolefnishlutleysi engin óskhyggja

Rishi Sunak, forsætisráðherra Bretlands, í morgun.
Rishi Sunak, forsætisráðherra Bretlands, í morgun. AFP/Alastair Grant

Rishi Sunak, forsætisráðherra Bretlands, segir að Bretar muni ná markmiðum sínum varðandi kolefnishlutleysi þrátt fyrir að hans eigin loftslagsráðgjafi saki hann um óskhyggju í þeim efnum.

Í viðtali við BBC sagðist Sunak ekki vera að hægja á ferðinni í baráttunni gegn loftslagsbreytingum þrátt fyrir að hafa tilkynnt í gær um umfangsmiklar breytingar á stefnu bresku ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum.

Ákvörðunin hefur verið gagnrýnd og segir bresk nefnd um loftslagsbreytingar (CCC) að þjóðin hafi „stigið skref aftur á bak”.

Sunak kveðst engu að síður sannfærður um að Bretland muni ná kolefnishlutleysi árið 2050.

Forsætisráðherra tilkynnti í gær um áform ríkisstjórnarinnar um undanþágur og frestanir þegar kemur að skuldbindingum þjóðarinnar í átt að kolefnishlutleysi.

Meðal annars stendur til að fresta um fimm ár banni við sölu á nýjum bensín- og díselbílum í landinu, auk þess sem ekki verður lögð sama áhersla á að að láta húseigendur hætta að kynda húsin sín með gasi.

Sunak er hann flutti ræðu sína í gær.
Sunak er hann flutti ræðu sína í gær. AFP/Justin Tallis

Íhaldsmenn, undir forystu Sunaks, hafa verið langt á eftir Verkamannaflokknum í skoðanakönnunum. Að sögn BBC vilja þeir búa til skýrar línur gagnvart andstæðingum sínum fyrir næstu þingkosningar sem eru fyrirhugaðar á næsta ári.

Sunak segir breytingarnar á stefnunni í loftslagsmálum fela í sér aukið raunsæi og hefur m.a. minnst á kostnaðinn við tæknina sem þarf til að minnka útblástur gróðurhúsalofttegunda, þar á meðal rafmagnsbíla.

Lögbundin markmið

Chris Stark, formaður bresku nefndarinnar um loftslagsbreytingar (CCC), sagði við BBC að breytingarnar sem Sunak tilkynnti um í gær þýddu að erfiðara yrði fyrir ríkisstjórnina að ná lögbundnum markmiðum sínum í loftslagsmálum.

„Óskhyggjan sem hér um ræðir snýst um að við erum ekki með stefnupakka til að ná þeim lögbundnu markmiðum sem þjóðin hefur þegar samþykkt,” sagði hann.

Sunak viðurkenndi að óskhyggja dygði ekki til að ná kolefnishlutleysi en sagði almenning hafa horfst í augu við þessi markmið „án þess að eiga heiðarlegt samtal við stjórnvöld um hvernig hann á að framfylgja þeim”.

Samþykktu Parísarsáttmálann árið 2015

Hitamet hafa verið slegin víða um heim á þessu ári, auk þess sem öfgar í veðurfari halda áfram.

197 þjóðir samþykktu Parísarsáttmálann árið 2015, þar á meðal Bretland. Þar var samþykkt að hitastig jarðar hækki ekki um meira en 1,5 stig fyrir árið 2100.

Til að ná þessu segja vísindamenn að kolefnishlutleysi þurfi að nást fyrir árið 2050.

Sameinuðu þjóðirnar hafa hvatt þjóðir heims til að standa við skuldbindingar sínar og koma í veg fyrir að illa fari.

Þrátt fyrir að Bretar séu aðeins ábyrgir fyrir 1% af útblástri gróðurhúsalofttegunda í heiminum hefur þjóðin lagt mikinn metnað í að minnka kolefnisfótspor sitt. 

Eftir ræðu Sunaks í gær hafa umhverfisverndarsinnar og sumir íhaldssamir þingmenn sakað forsætisráðherrann um að hverfa frá leiðtogahlutverki Breta í loftslagsmálum.

mbl.is

Bloggað um fréttina