Nasistaþýfi rataði aftur heim eftir 80 ár

Eitt verkanna sem eru nú komin aftur í réttar hendur. …
Eitt verkanna sem eru nú komin aftur í réttar hendur. Myndin er eftir austurríska listamanninn Egon Schiele. AFP

Yfirvöld í New York-ríki í Bandaríkjunum greindu frá því í gær að þau hefðu skilað listaverkum sem nasistar stálu frá fjölskyldu gyðingsins Fritz Grunbaum á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar. Grunbaum var austurrískur kabarettsöngvari sem lét lífið í helför nasista. 

Verðmæti verkanna er metið yfir 9 milljónir dala, sem jafngildir um 1,2 milljörðum kr. 

Verkið „Ég elska mótsetningu
Verkið „Ég elska mótsetningu" eftir Egon Schiele. AFP

Um er að ræða sjö teikningar eftir austurríska listamanninn Egon Schiele. Saksóknaraembættið í New York segir að þau söfn og stofnanir sem geymdu verkin hafi skilað þeim, m.a. Nútímalistasafnið í New York (MoMA), eftir að sýnt hafði verið fram á að þetta væri nasistaþýfi. 

Þetta þykir vera mikill sigur fyrir ættingja Grunbaums sem hafa barist fyrir því árum saman að verkunum verði skilað. 

Grunbaum lést í útrýmingarbúðunum í Dachau árið 1941. 

Alvin Bragg, ríkissaksóknari í New York, segir í yfirlýsingu að þetta standi vonandi sem vitnisburður um það að þrátt fyrir þann dauða og eyðileggingu sem nasistar báru ábyrgð á, þá sé aldrei of seint að endurheimta það sem þeir stálu og um leið minnast fórnarlambanna. 

mbl.is
Loka