Saka Google um að eiga þátt í dauða ökumanns

Google.
Google. AFP

Fjölskylda Bandaríkjamanns sem drukknaði eftir að hafa ekið bifreið fram af ónýtri brú heldur því fram að hann hafi látist vegna þess að bandaríska tæknifyrirtækið Google hafi látið undir höfuð leggjast að uppfæra kortagrunn sinn. 

Maðurinn, Philip Paxon, lést í september í fyrra þegar hann reyndi að aka yfir brú í Hickory í Norður-Karólínu. Fjölskylda hans hefur höfðað mál gegn Google á þeim grundvelli að Google hafi ekki sýnt á korti að brúin hafði hrunið níu árum áður. 

Talsmaður Google segir að fyrirtækið sé að fara yfir málið. 

Paxon, sem var tveggja barna faðir, var að aka heim kvöldið örlagaríka úr níu ára afmæli dóttur sinnar, sem var haldið heima hjá vinafólki. Fram kemur í málsskjölum að hann hafi verið að aka um svæði þar sem hann var lítt staðkunnugur, þegar hann lést. 

Eiginkona hans og dætur voru eftir í veislunni til að aðstoða við tiltekt og voru því ekki með honum þegar slysið varð, í úrkomusömu veðri að kvöldi til, að því er segir í umfjöllun BBC

mbl.is
Loka