Upprættu glæpahring í falsfatabransanum

Lögregla stöðvaði glæpahring falsfataframleiðenda.
Lögregla stöðvaði glæpahring falsfataframleiðenda.

Spænska lögreglan hefur tilkynnt um að tekist hefði að uppræta starfsemi glæpahrings sem einsetti sér að falsa fatnað vinsælla vörumerkja og selja á Spáni. Rannsókn málsins teygði sig til Portúgal og gerði lögregla í samvinnu við þarlenda kollega sína áhlaup á fataverksmiðjur í norðurhluta Portúgal.

Alls var lagt hald á 235 tonn af fatnaði og níutíu og níu manns handteknir. 

Voru fötin fölsuð í þeim skilningi að sett voru vörumerki þekktra fataframleiðenda á fatnað sem framleiddur var í verksmiðjunum. Fötin voru svo flutt til Spánar og seld þar. Net sölunnar náði til Spánar í heild sinni og voru sérstakar deildir sem sáu um rekstur hvers landsvæðis fyrir sig. 

Glæpahringurinn er sagður eiga rætur sínar að rekja til Marokkó. Á meðal hinna handteknu voru tveir klerkar. Annar þeirra Marokkóskur og starfaði í mosku í bænum Xinzo de Limia á Spáni. Hann er sagður meðal höfuðpaura í málinu. Fékk moskan meðal annars framlag upp á 100.000 evrur frá glæpahringnum. 

Sagt er að glæpahringurinn hafi auðgast um 5,5 milljónir evra eða því sem nemur um 800 milljónum króna á tveimur árum.

Rannsókn á málinu hófst 2012 og meðal annars var gerð húsleit á 117 stöðum víðsvegar um Spán við rannsókn málsins. Samhliða var tíu verksmiðjum í Portúgal lokað. 

Meðal hinna handteknu voru 37 Senegalar, 34 Portúgalar, 19 Marokkómenn og níu Spánverjar.

mbl.is