Flugskeytum skotið á höfuðstöðvar á Krímskaga

Gervihnattarmynd frá því í september sem sýnir höfnina í Sevastopol …
Gervihnattarmynd frá því í september sem sýnir höfnina í Sevastopol á Krímskaga. AFP

Að minnsta kosti einn er látinn eftir að Úkraínumenn gerðu flugskeytaárás á höfuðstöðvar rússneska sjóhersins í Svartahafi á Krímskaga, að sögn Rússa. 

Úkraínumenn hafa beint sjónum sínum að Krímskaga eftir innrás Rússa í Úkraínu. Árásum á svæði rússneska hersins á skaganum hefur fjölgað undanfarið, enda hafa Úkraínumenn heitið því að ná honum aftur á sitt vald eftir að Rússar innlimuðu hann árið 2014.

„Ráðist hefur verið á höfuðstöðvar flotans með flugskeytaárás óvinarins,” sagði Mikhail Razvozhayev, ríkisstjóri Sevastopol, stærstu borgar Krímskaga, á samfélagsmiðli.

Hann bætti við að brak úr flugskeyti hefði fallið skammt frá leikhúsi og hvatti íbúa til að halda sig fjarri.

Í annarri færslu varaði hann við annarri loftárás og hvatti íbúa borgarinnra, sem eru um 500 þúsund talsins, til að halda sig innandyra.

Að sögn rússneska varnarmálaráðuneytisins lést einn í árásinni og voru fimm flugskeyti skotin niður af loftvarnakerfum.

Árásum Úkraínumanna og Rússa í og í kringum Svartahaf hefur fjölgað eftir að Rússar drógu sig út úr samkomulagi sem tryggði örugga för almennra flutningaskipa frá þremur úkraínskum höfnum.

mbl.is