Hlýjasti ágústmánuður sögunnar

Ágúst 2023 var hlýjasti ágústmánuður jarðar frá upphafi mælinga.
Ágúst 2023 var hlýjasti ágústmánuður jarðar frá upphafi mælinga. AFP

Ágúst var hlýjasti ágústmánuður jarðar frá upphafi samkvæmt mælingum bandarísku haf-og loftslagsstofnunarinnar NOAA sem fylgst hefur grannt með hitastigi plánetunnar síðastliðin 174 ár.

Yfirborðshiti á heimsvísu í ágúst var 1,25°c yfir meðaltali 20. aldar.

Í umfjöllun New York Times kemur fram að júlí og júní hafi einnig verið hlýjustu mánuðir sem mælst hafi á heimsvísu. Þá hafi hafi hiti sjávar á heimsvísu náð nýjum hæðum fimmta mánuðinn í röð. 

Þá segir einnig að í ágúst hafi 19 nafngreindir stormar myndast um heim allan og þar hafi átta náð hitabeltisstyrk, en hækkandi hitastig kyndir undir sterkari stormum. 

Að sögn sérfræðinga NOAA er nánast fullvíst að árið 2023 verði annað hvort það hlýjasta eða næsthlýjasta í sögunni og er mögulegt að á næsta ári muni hitinn hækka enn meira.

mbl.is

Bloggað um fréttina