Öldungadeildarþingmaður ákærður fyrir mútuþægni

Bob Menendez er formaður utanríkismálanefndar öldungadeildarinnar
Bob Menendez er formaður utanríkismálanefndar öldungadeildarinnar AFP/Al Drago/Pool

Öldungadeildarþingmaður Á Bandaríkjaþingi hefur verið ákærður í þremur liðum ásamt konu sinni fyrir spillingu. Dómsmálaráðuneytið gerir honum að sök að hafa þegið mútur í formi seðla, gullstanga og lúxusbíls svo fátt eitt sé nefnt.

Þingmaðurinn er Bob Menendez og er formaður utanríkismálanefndar öldungadeildarinnar og einnig þungavigtarmaður innan Demókrataflokksins. Hann neitar alfarið sök í málinu.

Við húsleit á heimili hjónanna fundust gullstangir að andvirði um það bil 13 milljóna króna og yfir 65 milljónir króna í reiðufé, að sögn saksóknara.

65 milljónir króna í reiðufé fundust á heimil Mendez.
65 milljónir króna í reiðufé fundust á heimil Mendez. AFP

Á að hafa hjálpað egypskum stjórnvöldum

Gegn þessum mútum á Menendez að hafa veitt ákveðnum starfsmönnum stjórnvalda Egyptalands viðkvæmar upplýsingar, aðstoðað við sölu vopna til Egyptalands og þrýst á fjármálaráðuneyti og utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna að ganga í frekari samningaviðræður um verkefni við Nílarfljót.

Í ákærunni er því haldið fram að frá árinu 2018 til síðasta árs hafi Menendez þegið hundruð þúsunda dala í mútur frá þremur kaupsýslumönnum í New Jersey-ríki í skiptum fyrir aðstoð í viðskiptum þeirra og dómsmálum.

Viðleitni Menendez fól meðal annars í sér að hjálpa kaupsýslumanninum Wael Hana að vernda viðskiptaeinokun sem egypsk stjórnvöld veittu honum.

Damian Williams, ríkissaksóknari suðurumdæmis New York, opnaði blaðamannafundinn þar sem …
Damian Williams, ríkissaksóknari suðurumdæmis New York, opnaði blaðamannafundinn þar sem Menendez var ákærður í þremur liðum. AFP/Getty images/Alexi J. Rosenfeld

Neitar sök

Menendez hefur gefið frá sér yfirlýsingu þar sem hann neitar sök.

„Árum saman hafa öfl á bak við tjöldin ítrekað reynt að þagga niður í rödd minni og grafa mína pólitísku gröf,“ segir hann meðal annars í yfirlýsingunni.

Þetta er í annað sinn sem hann er ákærður fyrir að þiggja mútur en árið 2015 var hann sakaður um að þiggja mútur í formi ýmissa fríðinda eins og að hafa fengið flugferðir á einkaþotum og um milljarð króna í ólöglegum kosningaframlögum.

Þeim ákærum var vísað frá þremur árum síðar af dómsmálaráðuneytinu þar sem kviðdómur gat ekki komist að niðurstöðu í málinu.

Hér má sjá reiðufé, gullstangir og Mercedes Benz-bíl sem hann …
Hér má sjá reiðufé, gullstangir og Mercedes Benz-bíl sem hann og konan hans eiga að hafa þegið. AFP/Getty Images/Alexi J. Rosenfeld
mbl.is
Loka