Skotinn til bana eftir útistöður við nágranna

Í tilkynningu lögreglunnar í Volusia-sýslu segir að Edward Druzolowski, maður …
Í tilkynningu lögreglunnar í Volusia-sýslu segir að Edward Druzolowski, maður á áttræðisaldri sem býr í næsta húsi, hafi verið handtekinn vegna málsins. Ljósmynd/Volusia Sheriff's Office

Karlmaður á fimmtugsaldri var skotinn til bana er hann var að snyrta tré við heimili föður síns í Volusia-sýslu í Flórída í Bandaríkjunum á mánudag.

Brian Ford, fórnarlambið, var úti ásamt átta ára syni sínum þegar að ráðist var á hann. 

Í tilkynningu lögreglunnar í Volusia-sýslu segir að Edward Druzolowski, maður á áttræðisaldri sem býr í næsta húsi, hafi verið handtekinn vegna málsins.

Í tilkynningunni segir að Druzolowski hafi játað á sig manndrápið við yfirheyrslu. 

Samkvæmt lýsingum Druzolowski af atburðarásinni var Ford innan hans lóðarmarka að snyrta tré föður síns. Druzolowski skipaði Ford að yfirgefa lóðina sína undir eins og hótaði honum með byssu.

Þegar Ford neitaði að fara skaut Druzolowski hann.

Móðir Ford hringdi í kjölfarið á neyðarlínuna. Er viðbragðsaðilar komu á vettvang voru endurlífgunartilraunir gerðar en án árangurs. Var Ford úrskurðaður látinn á vettvangi.

Eiginkona Druzolowski, sem einnig hringdi á neyðarlínuna, sagði eiginmann sinn ekki hafa ætlað sér að skjóta Ford, hann hafi einungis ætlað að hræða Ford.

mbl.is