Ungar stúlkur fengu sendar nektarmyndir af sjálfum sér

Notast er við app til að breyta myndum af ungmennunum. …
Notast er við app til að breyta myndum af ungmennunum. Mynd úr safni.

Rúmlega 20 spænskar stúlkur hafa tilkynnt lögreglu að þær hafi fengið sendar nektarmyndir af því sem lítur út fyrir að vera þær sjálfar. Sú er þó ekki raunin því myndunum hefur verið breytt með hjálp gervigreindarapps.

Samkvæmt því sem fram kemur í máli lögregluyfirvalda á Spáni voru myndir teknar af samfélagsmiðlareikningum stúlknanna. Þar voru þær fullklæddar en myndunum svo breytt og deilt áfram á Whatsapp-skilaboðaforritinu.

Örvæntingafullir foreldrar 

Foreldrar stúlknanna eru sagðir örvæntingarfullir og hafa sumir þeirra leitað til saksóknara til að fá svör við þeirri spurningu hvort lög hafi verið brotin með dreifingu myndanna. 

„Myndirnar líta mjög raunverulega út,“ er haft eftir móður einnar stúlkunnar. Fórnarlömbin eru flest á unglingsaldri. Yngsta stúlkan sem hefur orðið fyrir barðinu á þessari óværu er 11 ára gömul.

Fátíma Gomes, móðir eins barnsins, sagði að óprúttinn drengur hefði reynt að beita dóttur hennar fjárkúgun. Þegar hún neitaði að greiða sendi hann henni mynd af henni sem hafði verið breytt í gervigreindarappinu.

Þó ekki sé um raunverulega nekt að ræða hefur málið valdið stúlkunum miklu hugarangri. „Þið vitið ekki hvaða skaða þið hafið valdið,“ er haft eftir móður einnar stúlkunnar.

Kostar 10-25 evrur að fá nektarmynd 

Ríkislögreglan á Spáni hefur málið til rannsóknar. Þegar hafa nokkrir drengir verið yfirheyrðir vegna málsins. Sérstakt app hefur verið notað til þess að breyta myndunum og getur hver sem er nálgast það. Kostnaður við að svipta fólk klæðum á myndunum er 10-25 evrur.

Fjölmargar spurningar hafa vaknað sem laganna armur þarf að svara. Ein er sú hvort yfir höfuð sé um ólöglegt athæfi sé að ræða hjá þeim sem kaupa slíkar falsmyndir eða hafa þær í sínum fórum.

Manuel Cancio, lagaprófessor í refsirétti í Madríd, segir málið snúið því lögin séu skrefi á eftir tækninni. Þó vissulega sé ólöglegt að eiga og birta nektarmyndir af ungmennum þá breyti það stöðunni þegar eingöngu er notaður hluti af mynd, t.a.m. andlit, en restin af myndinni er tölvugerð.

„Þar sem um er að ræða djúpfölsun (deep fake) er ekki endilega hægt að segja að um sé að ræða brot á friðhelgi einkalífs,“ segir Cancio.

Hver eru brotin? 

Hitt lagalega úrlausnarefnið snýr að því hvort hægt sé að tala um dreifingu á barnaklámi. Deildar meiningar eru um þennan hluta málsins.

Sumir sérfræðingar segja að svo lengi sem andlitið þekkist eigi sömu viðurlög að eiga við um þá sem eiga eða dreifa slíkum myndum og þá sem eiga eða dreifa barnaklámi. Viðurlögin við því eru 5-9 ára fangelsi samkvæmt spænskum lögum. 

Aðrir lagasérfræðingar segja að um sé að ræða blygðunarsemisbrot. Viðurlögin við slíku broti eru allt að tveggja ára fangelsi.

mbl.is
Loka