10 ára gamall ökumaður stöðvaður af lögreglu

Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Myndin tengist fréttinni ekki beint. AFP/Frederic J. Brown

Tíu ára gamall drengur og ellefu ára gömul systir hans voru stöðvuð af lögreglu er þau voru á leið frá Flórída til Kaliforníu á bíl móður sinnar. 

Systkinin höfðu keyrt um 320 kílómetra er lögregla stöðvaði bílinn í Norður-Flórída klukkan fjögur aðfaranótt fimmtudags. 

ABC News greinir frá því að móðir barnanna hafi tilkynnt lögreglu að bíllinn og börnin væru horfin um fjórum klukkutímum áður en þau fundust. 

Tók raftæki barnanna

Lögreglumennirnir töldu að bílnum hefði verið stolið og drógu því upp skotvopn sín og skipuðu þeim sem voru inni í bílnum að stíga út. 

„Þeim til mikillar undrunar sáu þeir tíu ára gamlan dreng og ellefu ára gamla systur hans stíga út úr bifreiðinni,“ sagði í yfirlýsingu lögreglunnar. 

Börnin tjáðu lögreglunni að stúlkan hefði komist í uppnám er móðir þeirra tók raftækin þeirra eftir að þau óhlýðnuðust henni. Drengurinn ákvað því að keyra systur sína til Kaliforníu. 

Í yfirlýsingu lögreglunnar sagði að ekkert benti til þess að börnin byggju við ofbeldi og tekið fram að móðirin hefði ákveðið að gefa ekki út kæru. Börnin fóru því aftur heim með móður sinni.

mbl.is