Aurskriða féll á hraðbrautina E6 norðan við Gautaborg á milli klukkan eitt og tvö í nótt og olli gríðarlegum skemmdum. Lögregla biðlar til almennings að halda sig fjarri svæðinu vegna hættu á fleiri skriðuföllum.
Þetta kom fram á upplýsingafundi sænsku lögreglunnar en hún rannsakar nú hvort sprengingar á byggingarsvæði nærri hafi leitt til skriðufallsins.
Tíu bílar voru á hraðbrautinni er aurskriðan féll og voru þrír fluttir á sjúkrahús. Enginn slasaðist alvarlega. Þá urðu miklar skemmdir á bílastæði bensínstöðvar og þak veitingastaðar Burger King féll saman. Engin merki er um að eldsneyti hafi lekið frá bensínstöðinni.
„Ég hafði ekki hugmynd um hvað var að gerast,“ sagði Uladzislau Miklash vörubílstjóri í samtali við P4 Vast radio. Hann var sofandi í bíl sínum er bifreiðin byrjaði að renna til.
E6 er nú lokað á milli Stenungsund og Ljungskile og er óljóst hversu langan tíma viðgerðir munu taka, en þó er ljóst að um sé að ræða marga mánuði. Á hverjum degi aka um tíu þúsund ökutæki um hraðbrautina sem er mikilvæg umferð í Bohuslän-héraðinu og til Suður-Noregs.
Að sögn sérfræðinga er mikið um kviksand á svæðinu og því getur leir hreyfist til við rigningu eða titring.